Óbreytt stjórn – fleiri félagar
Öll stjórn klúbbsins var endurkjörin á aðalfundi sem haldinn var 30. nóvember s.l. Á fundinum urðu miklar umræður um fjölgun í klúbbnum, en samkvæmt fjárhagsáætlun lagði stjórnin til að fjölgað yrði um 100 félaga á árinu 2015. Hörð andstaða var meðal sumra fundarmanna, en aðrir studdu hugmyndina. Rökstuðningur stjórnar, sem reyndar hafði komið fram áður í stjórnarfréttum, var að nauðsynlegt væri að auka tekjur verulega til þess að geta haldið starfseminni í þeim farvegi sem hún hefur verið, meðal annars væru nauðsynleg vélakaup framundan. Þar að auki sýndu sig að völlurinn væri illa nýttur og ætti að geta annað mun fleirum auk þess sem auðvelt væri að taka fjölgunina til baka með því að taka ekki inn nýja félaga næstu 2-3 árin fyrir þá sem kynnu að hætta, ef ástæða reyndist til.
Niðurstaða fundarins var að fjárhagsáætlunin – og þar með fjölgunin – var samþykkt en því jafnframt beint til stjórnarinnar að vanda til verka og reyna með öllum ráðum að koma í veg fyrir að völlurinn yrði yfirfullur, eins og sumir töldu hættu á.
Nýjar rafdrifnar vélar
Í síðustu viku gekk klúbburinn frá kaupum á tveimur nýjum sláttuvélum sem samtals kosta rúmar 12 milljónir króna. Önnur vélin er algjörlega rafdrifin en hin gengur fyrir eldsneyti þar sem hún er ekki fáanleg öðruvísi. Vonast hafði verið til að fá mætti síðarnefndu vélina notaða og skipta henni síðar út þegar hún væri fáanleg að fullu rafdrifin, en engin slík vél var fáanleg. Þessi vélakaup voru orðin mjög aðkallandi og sér þess m.a. stað í rekstrarreikningi 2014 að kostnaður af viðhaldi véla jókst mikið.
Flýtum leik
Það hversu langan tíma tekur að leika einn golfhring er talin helsta ástæða minni aðsóknar og fækkunar félaga í golfklúbbum víðast hvar í heiminum. Við þessu er reynt að bregðast með ýmsum hætti: Á sumum völlum er skylda að vera á golfbíl, vallarverðir eru sífellt á ferðinni og reka á eftir þeim sem leika hægt, lögð er áhersla á að búa til fremri teiga fyrir þá sem eru með háa forgjöf, fallreitir eru settir til þess að einfalda ákvarðanatöku um hvar og hvernig skuli taka víti og rauðir hælar sumsstaðar settir í stað hvítra. Byltingarkenndustu hugmyndirnar eru þær að búa til velli sem eru styttri en 18 holur og aðlaga leik á þeim að forgjafarkerfinu.
Aukinn leikhraði er forgangsmál á Nesvellinum 2015. Stjórnin hefur rætt þessi mál mikið að undaförnu. Með auknum hraða næst ekki aðeins að nýta völlinn betur heldur gerir það leikinn mun skemmtilegri. Á kynningarfundunum sem haldnir verða nú á næstunni verður farið yfir þær hugmyndir sem uppi eru. Ræsir og vallarvörður mun fá stærra hlutverk en áður m.a. með því að vera á ferðinni um völlinn, hjálpa til og ýta á eftir. En það eru líka ýmsar mjög spennandi hugmyndir á borðinu, s.s. um að skipta á hvítum hælum og rauðum umhverfis völlinn, setja fallreiti, banna leit að bolta á ákveðnum svæðum (blágrænir hælar), spila „ready golf“ og síðast en ekki síst að fjölga teigum og stjórna leik á þeim eftir forgjöf en ekki kyni eða aldri. Stjórnin hvetur félaga til þess að sækja fundina og segja álit sitt, en fundirnir verða haldnir: 5. mars, 16. mars og 26. mars. Fundirnir verða nánar auglýstir þegar nær dregur á nkgolf.is
Inniaðstaðan: Klúbburinn hefur fengið aðstöðu í Lækningaminjasafninu eins og undanfarin ár. Opnir tímar fyrir félaga í Nesklúbbnum hefjast á mánudaginn kemur og verða eftirfarandi:
Mánudagar: 20.00 – 22.00
Miðvikudagar: 13.00 – 15.00
Fimmtudagar: 20.00 – 22.00
Möguleiki er á að fjölga opnum tímum og mun það verða vegið og metið eftir aðsókn.