Síðasta mótið af sjö í öldungamótaröð Nesklúbbsins fór fram í síðastliðinn fimmtudag. Leikið var bæði í karla- og kvennaflokki og af þeim sjö mótum sem haldin voru töldu fimm bestu hjá hverjum kylfingi til stiga. Keppni í báðum flokkum var æsispennandi. Í kvennaflokki var Björg Viggósdóttir efst fyrir síðasta hring, tveimur punktum betri en Kristín Erna Gísladóttir sem var í öðru sæti. Þær stöllur skáru sig nokkuð úr í kvennaflokknum og svo fór að lokum að Kristín Erna sigraði þar sem hún fékk 35 punkta í síðasta hring á meðan Björg fékk 30.
Í karlaflokki var staðan ekki síður spennandi. Tölfræðilega áttu fjórir kylfingar möguleika á sigri fyrir síðasta mót. Walter Lentz var í fyrsta sæti fyrir síðasta hring, einum punkti á undan Erni Baldurssyni sem var í öðru sæti. Í þriðja sæti var svo Ágúst Þorsteinsson, þremur punktum á eftir Erni og 14 punktum á undan Herði R. Harðarsyni sem var í fjórða sæti. Hörður var þó með einn mjög slakan hring sem taldi og með því að eiga góðan síðasta dag myndi hann hoppa vel upp töfluna. Svo fór að lokum að sigurvegari varð Ágúst sem fékk 35 punkta á síðasta hring og strokaði um leið út hring upp á 28 punkta sem hans lakasta skor. Walter sem fékk 32 punkta á síðasta hring varð í öðru sæti og Örn í því þriðja tveimur punktum á eftir Walter. Heiðarleg tilraun Harðar sem fékk 38 punkta dugði ekki til en hann endaði aðeins punkti á eftir Erni og varð í fjórða sæti.
Staða efstu manna varð annars eftirfarandi:
karlaflokkur
Sæti | Nafn | 21.5 | 24.5 | 4.6 | 7.6 | 18.6 | 16.7 | 19.7 | Samtals | 5 bestu |
1 | Ágúst Þorsteinsson | 36 | 35 | 31 | 28 | 36 | 35 | 201 | 173 | |
2 | Walter Lúðvík Lentz | 31 | 31 | 40 | 28 | 33 | 35 | 32 | 230 | 171 |
3 | Örn Baldursson | 37 | 31 | 34 | 30 | 34 | 33 | 31 | 230 | 169 |
4 | Hörður Runólfur Harðarson | 34 | 22 | 31 | 31 | 34 | 38 | 190 | 168 |
Kvennaflokkur
Sæti | Nafn | 21.5 | 24.5 | 4.6 | 7.6 | 18.6 | 16.7 | 19.7 | Samtals |
1 | Kristín Erna Gísladóttir | 34 | 31 | 25 | 32 | 35 | 157 | ||
2 | Björg Viggósdóttir | 29 | 31 | 31 | 33 | 30 | 154 | ||
3 | Oddný Rósa Halldórsdóttir | 33 | 37 | 31 | 101 |