Eins og fram kom á félagafundunum sem haldnir voru í vor þar sem m.a. niðurstöður viðhorfskönnunarinnar sem framkvæmd var á meðal félagsmanna síðastliðið haust voru kynntar, ríkti ákaflega mikil ánægja félagsmanna með það að hafa vallarvörð eða ræsi á 1. teig. Þannig taldi mikill meirihluti félagsmana það skipta miklu máli að hafa ræsi sem gerði það að verkum að leikurinn á vellinum varð mun hraðari fyrir vikið.
Stjórn klúbbsins ákvað því síðastliðinn vetur að sami háttur yrði á í sumar og hefur nú verið ráðið í störfin fyrir sumarið.
Á milli kl. 08.30 og 13.30 verður það Steinn Baugur Gunnarsson sem mun eins og í fyrra sjá um að ræsa kylfinga út eftir settum reglum. Stein Baug þekkja nú væntanlega flestir félagsmenn en hann hefur verið einn fremsti kylfingur klúbbsins til margra ára.
Á milli kl. 16.30 og 20.00 mun svo Sædís Birta Barkardóttir standa vaktina. Sædís Birta er 23 ára Seltirningur og stundar nám í lögfræði við Háskóla Íslands. Hún hefur stundað golfíþróttina frá unga aldri og hefur þar fyrir utan unnið m.a. fyrir Golfklúbb Vestmannaeyja í sambærilegum störfum.
Um helgar verður svo ræsir frá kl. 09.00 og fram yfir hádegi eða þar til mestu umferðinni lýkur.
Nesklúbburinn býður þau bæði velkomin til starfa.