Niðurstöðurnar úr Gallup könnuninni

Nesklúbburinn

Eins og flestum meðlimum í Nesklúbbnum ætti að vera kunnugt gerði Gallup könnun á meðal meðlima að beiðni stjórnar klúbbsins til að heyra viðhorf til rástímaskráningar í stað boltarennu. Í sömu könnun var einnig spurt um viðhorf félagsmanna til vallarins, klúbbsins og veitingasölunnar. Greinilegt er að félagsmenn höfðu mikinn áhuga á viðfangsefninu þar sem rúmlega 80% svöruðu könnuninni.

Það er skemmst frá því að segja að af þeim sem tóku afstöðu vegna rástímaskráningar eða boltarennu, voru 60% sem vildu að haldið yrði áfram með rástímaskráninguna. Það er því ljóst að félagsmenn eru ánægðir með þessa nýjung og áfram verður haldið með að þróa hana að þörfum félagsmanna.

Þá var spurt hversu líklegt eða ólíklegt það væri að viðkomandi myndi mæla með því við vini og ættingja að spila Nesvöllinn. Niðurstaðan var mjög góð eða NPS skor upp á 56,1. Til samanburðar er almennt meðaltal í NPS könnunum -20, en skalinn sem unnið er með er á milli -100 til 100.

Þegar spurt var um ánægju félagsmanna með Nesklúbbinn voru 96,3% á heildina litið ánægð með klúbbinn. Varðandi veitingasöluna, var ánægja félagsmanna á sömu nótum en 94,6% lýstu yfir ánægju með hana. Þetta eru virkilega jákvæðar niðurstöður og hvetjandi fyrir alla aðila að halda áfram á sömu braut og gera jafnvel enn betur.

Hægt er að sjá allar niðurstöður könnunarinnar hér á síðunni undir „um nk/skjöl“ eða með því að smella hér.

Félagsmönnum þökkum við fyrir frábæra þátttöku og margar mjög góðar ábendingar sem unnið verður með áfram.

Stjórn Nesklúbbsins