Eins og félagar klúbbsins hafa eflaust orðið varir við hafa orðið töluverðar tafir á þeim framkvæmdum sem byrjað var á í haust við endurnýjun og uppbyggingu æfingasvæðisins austan golfskálans. Til stóð upphaflega að klára þessa framkvæmd fyrir síðustu mánaðarmót en vegna ófyrirsjáanlega tafa hefur verkið því miður dregist á langinn. Leyfi barst loksins frá Seltjarnarnesbæ um að halda áfram síðastliðinn fimmtudag og hefur því verið hörðum höndum síðan. Mikið kappsmál er að ná að tyrfa svæðið fyrir frost svo hægt verði að nota flötina næsta sumar. Allir starfsmenn klúbbsins hafa því lagst á eitt og á meðfylgjandi mynd má sjá Jóhann Vallarstjóra og Kristján Haraldsson sem að öllu jafna sér um veitingasölu klúbbsins en hann tók fram hanskana og hjálpaði til við að setja niður vatnslögnina fyrir vökvunarkerfið í svæðið. Ef veðurguðirnir verða okkur hliðhollir er svo áætlað er að tyrfa síðari hluta þessarar viku.