Það var engu líkara en að verið væri að selja miða á stórviðburð í Hörpunni í gærkvöldi þegar skráningarfrestur í Meistaramótið var að renna út. Slíkt var álagið á Golfbox þegar skráningarnar hrönnuðust inn á lokametrunum og endaði það svo að nýtt met var slegið í Meistaramóti klúbbsins. Blessunarlega annaði Golfboxið öllu og eru nú 222 þátttakendur skráðir til leiks. Flestir þátttakendur eru í 2. og 3. flokki karla en heilt yfir er góð skráning í flestum flokkum. Það er því algjör veisla framundan og geta keppendur látið sér hlakka til því má búast við spennandi keppni í öllum flokkum.
Nú tekur við endanleg niðurröðun á rástímatöflunni og vonumst við til að geta birt hana síðar í dag. Rástímar fyrir fyrsta dag verða svo birtir á Golfbox á morgun, föstudag þannig að fylgist vel með bæði á heimasíðu klúbbsins og Golfbox.