Í gær lauk keppni í Íslandsmóti golfklúbba í barna- og unglingaflokkum.
Á Kirkjubólsvelli í Sandgerði var keppt í flokki 14 ára og yngri (u14). Nesklúbburinn sendi eitt strákalið og eitt stelpulið til keppni.
Í stúlknaflokki var spiluð holukeppni í fimm liða deild, þar sem öll liðin spiluðu við hvert annað. Eftir góðan sigur á GK á miðvikudaginn, og sigur á GM og jafntefli við GKG á fimmtudaginn, voru NK stelpurnar í góðri stöðu fyrir lokaleikinn gegn GR í gær. Stelpurnar spiluðu vel og höfðu að lokum nauman 2-1 sigur. Niðurstaðan því 3,5 vinningur af 4 mögulegum og stelpurnar verðskuldaðir Íslandsmeistarar í flokki 14 ára og yngri í Íslandsmóti golfklúbba. Glæsilegur árangur!
u14 lið stúlkna skipuðu:
Arnheiður Helga Hermannsdóttir
Elísabet Þóra Ólafsdóttir
Emma Daðadóttir
Þórey Berta Arnarsdóttir

Emma, Elísabet, Þórey og Helga með Íslandsmeistarabikarinn
Leikfyrirkomulag í drengjaflokki var með öðru sniði vegna fleiri liða sem voru skráð til leiks. Fyrsta daginn var spilaður höggleikur þar sem fjórir leikmenn úr hverju liði spiluðu. Eftir höggleikinn var liðum raðað í efri og neðri hluta eftir skori, þar sem þrjú bestu skorin hjá hverju liði töldu. Í efri hlutanum var spiluð holukeppni um 1.- 7. sæti og í neðri hlutanum var spilað texas scramble afbrigði um 8. – 13. sæti. NK strákarnir rétt misstu af sæti í efri hlutanum, en það munaði aðeins tveimur höggum. Þeir léku því um 8. – 13. sæti og náðu að lokum 9. sæti.
u14 lið drengja skipuðu:
Aron Bjarki Arnarsson
Bjarni Hrafn Andrason
Leifur Hrafn Arnarsson
Egill Stefánsson
Jóhann Már Jóhannsson

Krummi, Leifur, Jóhann, Aron og Egill.
Við erum virkilega stolt af öllum krökkunum sem tóku þátt í mótinu fyrir okkar hönd.
Öll úrslit úr mótinu má finna hér.