Hrós á þig

Nesklúbburinn Almennt, Póstlistar allir, Póstlistar Aukaaðild

Kæru félagar,

Frá upphafi tímabils höfum við lagt okkur fram við að koma ýmsum skilaboðum til ykkar félagsmanna.  Með þessum skilaboðum höfum við haft það markmið að biðla til ykkar félagsmanna um að taka höndum saman við að halda annarsvegar vellinum snyrtilegri og hinsvegar að halda uppi góðu flæði á vellinum – eða í raun bara á endanum að gera leikinn skemmtilegri fyrir alla.  Nú ætlum við að taka saman hvernig til hefur tekist að okkar mati og hrósa þér.

  • Braut í fóstri – (sjá hér) þetta hefur tekist frábærlega og verið til algjörrar fyrirmyndar hjá ykkur.  Það er miklu minna af brotnum tíum á teigunum, þó það séu stundum boltaför á flötum að þá heyrir það nánast til undantekninga og glompur eru yfir höfuð vel rakaðar með nokkrum undantekningum.  Stuart vallarstjóri á ekki til orð yfir hvað félagsmenn Nesklúbbsins ganga vel um miðað við hvernig þetta hefur verið á öðrum völlum sem hann hefur unnið á.  Höldum áfram – þessu verkefni lýkur aldrei
  • Gönguleiðin á milli 8. flatar og 9. teigs.  Miklu, miklu betra en hér getum við engu að síður bætt okkur og það er svo svakalega einfalt.  Göngum bara undantekningalaust þá gönguleið sem sjá má á myndinni sem fylgdi tilkynningunni (sjá hér).  Að stytta sér leið er algjör óþarfi og getur leitt til leiktafar.
  • Staðfesting á rástíma.  Hér erum við að standa okkur MJÖG vel.  Undanfarið hefur verið send út viðvörun út á þá félagsmenn sem hafa gleymt sér.  Þeim fer fækkandi með hverjum deginum og í síðustu viku voru rétt um 95% sem staðfestu sig.  Það hefur nefninlega því miður borið of mikið á því að verið sé að misnota með ýmsum hætti þær reglur um rástíma sem við erum að vinna eftir (sjá hér).  Eina leiðin til þess koma í veg fyrir misnotkun er að við staðfestum okkur alltaf öll á rástíma – það líka tekur bara í mesta lagi 30 sekúndur.
  • Á skjánum sem við staðfestum okkur á rástíma með QR kóðanum höfum við sett upp mynd af því hvaða teiga við ættum að velja okkur með tilliti til forgjafar.  Skoðaðu þetta næst þegar þú staðfestir þig – kannski geturðu gert leikinn þinn skemmtilegri

Sem sagt – heilt yfir er þetta eitt stórt hrós á þig en munum samt að halda áfram að gera vel og gerum leikinn skemmtilegri.

Að lokum er eitt sem okkur langar að bæta við og prufa.  Það varðar boltana sem berast inn á völlinn frá æfingasvæðinu og þá helst hægra megin við 1. braut.  Þetta er ekki fallegt að horfa á og þó starfsfólk týni þetta upp reglulega að þá koma alltaf fleiri gulir boltar.  Okkur langar því að sjá hvort við getum unnið á þessu með því að þegar við göngum 1. brautina og við höfum tök á að þá sláum við eða hendum einum bolta sem þarna liggur út á æfingasvæðið.   Þetta er alls engin skylda og kannski á frekar við þá sem slá upphafshögg sitt aðeins til hægri og að sjálfsögðu má þetta ekki að taka þannig tíma að það tefji leik.

Með golfkveðju,
Vallarnefnd