Mótaskrá Nesklúbbsins er nú komin inn á golf.is. Fjöldi móta er svipaður og 2014 þar sem allt byrjar eins og venjulega með Hreinsunarmótinu sem í ár verður laugardaginn 2. maí. Þann dag verður jafnframt veitingasalan formlega opnuð og völlurinn sjálfur, að því gefnu að veðurguðirnir fari nú að vera kylfingum örlítið hliðhollari á næstu dögum og vikum.
Meistarmót klúbbsins verður vikuna 4. – 11. júlí og verða drög að niðurröðun flokka auglýst sérstaklega í tilkynningu hér á síðunni eftir helgi. Opin mót verða í ár fimm talsins þar sem glæsilegt mót „THE LAUNDROMAT CAFE OPEN“ kemur nýtt inn í mótaskrá klúbbsins þann 6. júní. Kvennamótin sívinsælu verða eins og áður sex talsins auk Einnarkylfukeppni kvenna og Lokamótinu (sjá nánar undir kvennastarf hér á síðunni). Þá er Öldungamótaröðin tekin út úr mótaskránni þetta árið þar sem þátttaka í þeim mótum þótti vera dræm og lítið tilefni til að halda hana.
Þá má geta þess að mótið „PÚTTMEISTARINN“ verður endurvakið eftir mörg ár í dvala. Púttmeistarinn er stórskemmtilegt mót fyrir kylfinga á öllum getustigum þar sem gerður verður 18 holu hringur á púttflötinni með ýmsum hindrunum. Fyrst leika þátttakendur 18 holu hring og komast svo 16 eða 32 (veltur á þátttöku) bestu áfram í holukeppni þar til uppi stendur í lokin sigurvegari sem fær þá titilinn Púttmeistari NK 2015. Mótið er allt spilað seinnipart og fram á kvöld fimmtudaginn 25. júní að því gefnu að veðrið verði ákjósanlegt.
Félagsmenn eru hvattir til þess að kynna sér hvað er að gerast á vellinum hverju sinni. Dagskrá hverrar viku verður birt hér á síðunni á mánudögum í sumar þar sem félagsmönnum gefst þá kostur á að sjá hvað er í gangi á vellinum vikuna sem framundan er.
Annars verða öll mót auglýst betur þegar nær þeim dregur hverju sinni. Mótaskránna í heild má sjá nánar með því að smella hér. (ATH. velja þarf Nesklúbburinn undir „klúbbur“ og smella svo á „sækja yfirlit“).