Hið árlega góðgerðarmót, Einvígið á Nesinu, fór fram á Nesvellinum í dag. Venju samkvæmt er tíu af bestu kylfingum landsins boðin þátttaka og í ár var spilað í þágu BUGL, barna- og unglingadeildar Landspítalans.
Mótið var með hefðbundnu sniði þar sem keppendur spiluðu fyrst 9 holu höggleik í morgun og eftir hádegið hófst svo einvígið sjálft sem fer fram með shoot-out fyrirkomulagi þar sem einn kylfingur dettur út á hverri holu þar til að loknum 9 holum einn kylfingur stendur uppi sem sigurvegari.
DHL Express á Íslandi hefur verið styrktaraðili mótsins frá upphafi og ávallt styrkt félög eða samtök sem láta sér hag barna varða. Í ár var það BUGL, barna- og unglingadeild Landspítalans en BUGL sérhæfir sig í greiningu og meðferð á geðröskunum barna og unglinga með það að leiðarljósi að stuðla að auknum lífsgæðum þeirra og fjölskyldna þeirra.
Mótið gekk í alla staði ákaflega vel, veðrið hreint út sagt stórkostlegt og talið að á fimmta hundrað áhorfendur hafi fylgst með kylfingunum leika við við hvern sinn fingur á Nesvellinum. Svo fór að lokum að Aron Snær Júlíusson úr golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar (GKG) sigraði eftir spennandi keppni við Birgi Leif á lokaholunni. Birgir Leifur sló upphafshögg sitt utan vallar á meðan Aron Snær sló yfir flötina og fékk að lokum auðvelt par. Birgir tók því annan bolta af teig og setti hann þá rúmlega tvo metra frá holunni sem hann púttaði svo í holu fyrir pari og því þurfti shoot-out. Þar hafði Aron Snær betur og er hann því sigurvegari Einvígisins 2015.
Í mótslok fór fram verðlaunaafhending og keppendum veittar viðkurkenningar fyrir þátttökuna, ásamt því að Halla Skúladóttir, aðstoðardeildarstjóri á legudeild BUGL tók á móti ávísun upp á eina milljón króna frá Sverri Auðunssyni starfsmanni DHL.
Úrslitin í einvíginu urðu annars eftirfarandi:
1. sæti: Aron Snær Júlíusson, GKG
2. sæti: Birgir Leifur Hafþórsson, GKG
3. sæti: Stefán Már Stefánsson, GR
4. sæti: Hlynur Geir Hjartarson, GOS
5. sæti: Ólafur Björn Loftsson, GKG
6. sæti: Þórður Rafn Gissurarson, GR
7. sæti: Björgvin Sigurbergsson, GK
8. sæti: Ragnhildur Sigurðardóttir, GR
9. sæti: Signý Arnórsdóttir, GK
10. sæti: Helga Kristín Einarsdóttir, NK
Höggleikur:
1. sæti: Stefán Már Stefánsson, GR – 32 högg
2. sæti: Þórður Rafn Gissurarson, GR – 32 högg
3. sæti: Ólafur Björn Loftsson, NK – 33 högg
Mótið var tekið upp af sjónvarpsstöðinni Stöð2 Sport og verður sjónvarpað n.k. miðvikudagskvöld.