Nú þegar sumarið er handan við hornið er ekki úr vegi að fara yfir aðstæður á vellinum og það sem framundan er:
Völlurinn: Nesvöllurinn kemur vel undan vetri. Í framhaldi af góðri tíð undanfarið er nú búið að valta allar brautir í tvígang ásamt því að flatirnar hafa bæði verið valtaðar og sandaðar og er það þónokkuð fyrr en undanfarin ár. Til stendur samkvæmt áætlun að opna inn á sumarflatirnar á hreinsunardaginn þann 7. maí. Ef aftur á móti veðurguðirnir verða áfram hagstæðir næstu daga verður það endurskoðað og vonandi hægt að fara inn á flatirnar fyrr. Brautirnar eru ákaflega viðkæmar um þessar mundir og eru kylfingar vinsamlegast beðnir um að slá ekki á brautunum heldur leika eftir vetrarreglum og spila í karganum (röffinu).
Af gefnu tilefni: Því miður hefur borið á því að gengið hefur verið með kerrur yfir bæði sumarflatir og -teiga. Hvort tveggja er síður en svo til þess að hjálpa til á meðan þessi svæði eru jafn viðkæm og þau eru. Þá ber að geta þess að völlurinn er eingöngu opinn fyrir félagsmenn.
Æfingasvæðið: Boltavélin var opnuð í gær og er hægt að nota bæði boltakort og 100 kr. myntir í vélina. Áfylling og sala á boltakortum fer fram á skrifstofu klúbbsins á skrifstofutíma. Opnu tímunum í Lækningaminjasafninu hefur þ.a.l. verið hætt þetta vorið og félagsmenn hvattir til þess að nýta sér æfingaaðstöðuna úti á golfvelli. Þeim félagsmönnum sem staðið hafa vaktirnar og haft umsjón með opnu tímum í vor eru færðar innilegustu þakkir fyrir aðstoðina.
Félagskírteini: Félagsskírteinin og pokamerkin voru að berast til landsins og verða þau póstlögð á næstu dögum til allra félagsmanna sem staðið hafa skil á félagsjöldum fyrir árið 2016.
Mótaskrá: Mótaskrá sumarsins var sett inn á golf.is fyrir páska. Eitthvað gengur erfiðlega að koma henni inn á heimasíðuna en unnið er að lagfæringum þar. Fyrir áhugasama má sjá niðurröðun mótanna á golf.is.
Starfkraftur: Nesklúbburinn auglýsti á dögunum eftir starfskrafti í vallarvörslu í sumar. Umsóknarfrestur rennur út á morgun og eru áhugasamir hvattir til þess að sækja um. Nánari upplýsingar um starfið má sjá hér á síðunni í eldri frétt.
Félagafundur: Á morgun, miðvikudaginn 20. apríl fer, eins og áður hefur komið fram, félagafundur í golfskálanum kl. 19.30. Þar verður m.a. farið yfir niðurstöður skoðanakönnunarinnar sem framkvæmd síðastliðið haust, nýjar teigmerkingar o.fl. ATH: Á fundinum verður einnig tilkynnt um samning sem forsvarsmenn klúbbsins munu undirrita kl. 09.00 í fyrramálið en þar er um að ræða ákaflega góðar fréttir sem munu snarbreyta aðstæðum fyrir félagsmenn Nesklúbbsins til framtíðar. Allir félagsmenn, nýir sem gamlir eru hvattir til þess að mæta á fundinn.