Formannspistill

Nesklúbburinn Almennt, Póstlistar allir

Kæru félagar,

Meistaramótinu lauk nú á dögunum. Það ánægjulegt að segja frá því að þátttakendur í ár voru 224, sem er metþátttaka. Það er þó enn ánægjulegra hversu vel mótið fór fram og sjá hvernig gróskan í barna og unglingastarfinu er að skila sér út á völlinn, en skýr dæmi um það eru að 37 tóku þátt í meistaramóti barna og unglinga sem er lang mesti fjöldi sem hefur tekið þátt og í meistaraflokki karla má segja að hafi orðið kynslóðaskipti á toppnum.

Þessa dagana er öldungabikarinn (50+) spilaður. Virkilega skemmtilegt mót, holukeppni (9 holur), 6 umferðir og spilað eftir monrad kerfi líkt og gert er á skákmótum.

Á næstu dögum og vikum eru spennandi viðburðir og mót á Nesvellinum. Þar má fyrst nefna Shoot-outið eða Einvígið á Nesinu (7. ágúst) þar sem bestu golfarar landsins etja kappi saman, svo 13. ágúst er Opna Coca-Cola mótið sem er elsta mót landsins. Því næst er spennandi nýjung en það er innanfélagsmót í betri bolta þann 26. ágúst. Þar spila 2 leikmenn saman og betri boltinn telur á hverri holu. Að lokum vil ég minna á Draumahöggið þann 9. september, en þar koma saman allir þeir sem hafa farið holu í höggi á landinu sl. ár á tímabilinu 1. sept – 31. ágúst og hafa skráð afrekið hjá Einherjaklúbbnum. Þetta er líklega stysta golfmót sem haldið er ár hvert, þar sem þátttakendur taka aðeins eitt högg. Hitti einhver í holuna (2. holan) þá keyrir viðkomandi heim á splúnkunýjum Benz. Ég skora því á þig að fara holu í höggi fyrir 1. sept, skrá það í Einherjaklúbbinn og mæta til leiks þann 9. september.

Ég hef verið spurður talsvert undanfarið af meðlimum hvernig gangi með fyrirhugaðar breytingar á vellinum. Staðan er þannig að við lögðum inn erindi til bæjarstjórnar varðandi allt verkefnið í september á síðasta ári. Við höfum fylgt því eftir og leitast eftir svörum. Á dögunum fengum við loks fund og erum við vongóð um að málið hafi alla vega tekið einn snúning áfram. Eins og skýrt kom fram í kynningunni á verkefninu í fyrra er fyrsta verkefnið að stækka bílastæðið. Við munum því einbeita okkur að því á næstu vikum að þrýsta þeim verkhluta áfram og draumurinn væri að hefja framkvæmdir á komandi vetri.

Með kærri golfkveðju,

Þorsteinn Guðjónsson
formaður