Birgir lagði Birgi í Einvíginu

Nesklúbburinn

Frídagur verslunarmanna var ekki frídagur hjá starfsmönnum Nesvallarins frekar en s.l. 16 ár. Klukkan 6 um morguninn var allur mannskapur og vélafloti klúbbsins kominn á fullt við að leggja lokahönd á undirbúning vallarins til þess að taka á móti bestu kylfingum landsins í Einvíginu á Nesinu. Fjöldi sjálfboðaliða bættist svo í hópinn fyrir og um hádegið og framkvæmdin gekk fumlaust fyrir sig.

Kylfingarnir léku við hvurn sinn fingur og lögðu sig bæði fram um að spila gott golf og skemmta áhorfendum með tilþrifum sem sjaldan sjást í mótum hinna bestu þar sem menn hugsa oftast meira um að forðast mistök en taka áhættur. Má segja að þar hafi hinn margfaldi meistari Björgvin Sigurbergsson GK farið fremstur að vanda.

Það var bæði kalt og hvasst þennan dag en samt léku þrír kylfingar undir pari í 9 holu mótinu um morguninn. Þar réðist bæði rásröð þátttakenda í einvíginu og einnig hvort Rúnar Geir sem sigraði á Þjóðhátíðardagsmótinu eða Nökkvi sem vann Opna Úrval Útsýn fengju þátttökurétt.

Ótrúlegur fjöldi fylgdist með einvíginu þrátt fyrir óhagstætt veður. Þar mátti sjá fjölmarga félaga NK sem eru fastagestir á vellinum en það var líka gaman að sjá hversu margir úr öðrum klúbbum koma til þess að fylgjast með. Áhorfendur settu skemtilega umgjörð um keppnina sem örugglega verður gaman að fylgjast með í þætti Loga Bergmann um einvígið sem sýndur verður á Stöð 2 Sport á næstu dögum.

Eins og komið hefur fram í flestum fjölmiðlum sigraði nýbakaður Íslandsmeistari í höggleik, Birgir Leifur Hafþórsson úr GKG í einvíginu eftir harða baráttu við 16 ára nafna sinn Birgi Björn Magnússon klúbbmeistara GK. Þeir léku báðir á 35 höggum í höggleiknum um morguninn, voru jafnir á síðustu sex holunum en Birgir Leifur lék betur á síðustu þremur og varð þar með sigurvegari. Þetta er í fyrsta skipti sem sami keppandi sigrar bæði í höggleiknum og einvíginu.

Forsvarsmenn Nesklúbbsins þakka öllum sem að framkvæmd Einvígisins á Nesinu komu; vallarstarfsmönnum, sjálfboðaliðum og þáttagerðarmönnum kærlega fyrir gott starf, kylfingunum fyrir þátttökuna, gestum fyrir komuna og síðast en ekki síst DHL fyrir stuðning við mótið í 17 ár. Að þessu sinni hlaut Dropinn, styrktarfélag barna með sykursýki, einnar milljón króna styrk frá DHL.