Bjarni Þór Hannesson ráðinn vallarstjóri hjá Nesklúbbnum

Nesklúbburinn

Í dag undirrituðu þeir Kristinn Ólafsson formaður Nesklúbbsin og Bjarni Þór Hannesson golfvallatæknifræðingur samning þar sem Bjarni er ráðinn vallarstjóri hjá Nesklúbbnum.  

Bjarni hefur mjög mikla þekkingu og reynslu sem bæði vallarstjóri og ráðgjafi í sínum fagi.  Árin 2013 – 2018 var hann vallarstjóri hjá Golfklúbbnum Keili í Hafnarfirði, þar á undan vallarstjóri hjá Golfklúbbi Grindavíkur og Golfklúbbnum Leyni á Akranesi ásamt því að hafa einnig starfað sem aðstoðarvallarstjóri hjá Golfklúbbi Reykjavíkur.  Þá hefur Bjarni einnig starfað erlendis á m.a. Sunningdale golvellinum í Englandi og Nashawtuc Country Club í Bandaríkjunum ásamt fleiri völlum sem haldið hafa stórmót í golfi.  Hann hefur oftar en einu sinni verið valinn vallarstjóri ársins innan raða SÍGÍ (samtaka íslenskra golf- og íþróttavallastarfsmanna), nú síðast í febrúar 2018.

Bjarni stundaði nám í golfvallarfræðum við Elmwood College í Skotlandi og er jafnframt eini Íslendingurinn sem hefur náð sér í M.Sc. gráðu í Sport Turf Technology þar sem hann stundaði nám við Cranfield háskólann.

Bjarni er 37 ára gamall, uppalinn á Akranesi og býr í dag ásamt eiginkonu sinni og þremur börnum í Reykjavík.  Hann mun hefja störf 1. desember næstkomandi og býður Nesklúbburinn hann innilega velkominn til starfa.