Braut í fóstri – hver er þín fósturbraut?

Nesklúbburinn Almennt, Póstlistar allir, Póstlistar Aukaaðild

Kæru félagar,

Við kynnum til leiks verkefnið „braut í fóstri“.   Öll hljótum við að vera sammála um að það þarf að ganga betur um völlinn okkar.  Það eru t.d. alltof mörg boltaför skilin eftir í flötunum, glompur eru oft á tíðum illa rakaðar og það eru brotin tí á teigunum. Verkefnið „braut i fóstri“ gengur út á það að allir félagsmenn taka sér eina braut í fóstur yfir sumarið.  Þannig ætlum við öll að leggja extra mikinn metnað í það að ala okkar fósturbraut vel upp með því að gera eftirfarandi þegar viðkomandi braut er leikin:

– Leita að boltaförum á flötum og gera við þau
– Raka glompur og passa upp á að hrífan sé í glompunni*
– Taka upp rusl og setja það í flokkunartunnurnar við skálann
– Henda brotnum tíum á teigunum í tíboxin
– Leggja torfusnepla í kylfufarið á teigum og brautum
– Laga skakka hæla (rauða, hvíta, bláa) passa samt að setja þá alltaf á sama stað

* Hrífurnar skal skilja eftir í glompunni og snúa í höggstefnu. Setja hrífuna helst ekki í miðja glompuna heldur þar sem hún „hefur sem minnst“ áhrif á leikinn.

Að sjálfsögðu hvetjum við alla til þess að ganga áfram vel um allan völlinn en tökum höndum saman og gefum fósturbrautinni okkar meiri gaum en öðrum brautum.

Við ætlum að styðjast við stafrófið til að ákveða hvaða braut verður þín . Upphafstafurinn í nafni þínu ákvarðar hvaða braut þú sinnir sérstaklega ef þér hugnast að taka þátt í þessu verkefni með okkur.

Braut 1:   A-Á
Braut 2:  B-D
Braut 3:  E-G
Braut 4:  H
Braut 5:  I-J
Braut 6:  K-M
Braut 7:  N-R
Braut 8:  S
Braut 9:  T-Ö

Vonandi taka allir vel í þetta verkefni og við sameinumst sem aldrei fyrr um að hafa völlinn okkar sem snyrtilegastan og bestan í sumar.

Með golfkveðju,
Vallarnefnd