Dagurinn í dag – lof og last

Nesklúbburinn

 

Annar dagur Meistaramótsins, og þrátt fyrir nokkra dropa á köflum var það á endanum góða skapið og þolinmæðin sem skiluðu öllum í hús.  Þolinmæðina þurfti svo sannarlega til eftir hádegið því þá varð leikurinn töluvert hægur sem orsakaðist af mörgum ástæðum.  Mótsstjórn mun laga eins og mögulegt er það sem að henni snýr.  Einnig minnum við alla kylfinga á að halda leikhraða.  Það þurfa bara allir í ráshópnum að vera samstíga um að halda í við næsta ráshóp fyrir framan – betur getum við ekki gert.

Lof fáið þið öll fyrir að hafa tekið til greina tilmæli okkar í gær er varðar skorkortin og glompurnar.  Þó einhverjar glompurnar hafi mátt vera betri var þetta allt annað og skorkortin öll til mikillar fyrirmyndar – takk.

Lastið fá allir þeir sem eru að henda munntóbakspokum út um víðan völl.  Nú er völlurinn farinn að taka á sig frábæra mynd og allir eru að leggja sig fram við að gera aðstæður sem bestar fyrir kylfinga.  Það er með ólíkindum að þurfa svo að horfa upp á slíkan óþrifnað sem gerist eingöngu af meðvituðum ákvörðunum.  Takið þetta til ykkar sem í hlut eigið, það er ekkert mál að gera betur og allir verða glaðir.

Megi öllum ganga sem allra best á morgun og umfram allt – njótið vel.

Mótsstjórn