Dagurinn í dag – spennan eykst

Nesklúbburinn

Veðurblíðan lék áfram við flesta keppendur á þessum næst síðasta keppnisdegi Meistaramótsins 2020.  Vissulega var  smá gola þegar leið á daginn (við á Nesinu byrjum sko að telja í 7 metrum þannig að 10-11 metrar flokkast undir golu) en heilt yfir var þetta bara flottur dagur.  Það skiptust á skin og skúrir í skorum.  Úrslit réðust í einum flokki og í öðrum klifruðu margir upp töfluna fyrir lokadaginn á meðan reyndar jafn margir sigu niður hana.  Það verður því æsispennandi dagur á morgun.

Við biðlum því enn og aftur til keppenda að þeir komi sér saman um að einhver einn í hverjum ráshópi setji inn skorið eftir hverja holu í Golfbox.  Þetta tekur enga stund og skapar frábæra stemningu í skálanum – þar er fullt af fólki að fylgjast með ykkur.

Á lokadegi Meistaramótsins 2020 ætlum við að krydda Meistaramótið 2020 enn frekar fyrir keppendur.  RÖDDIN eina og sanna (Páll Sævar Guðjónsson, félagsmaður okkar og vinur) mun mæta og kynna alla keppendur til leiks á 1. teig – en hafið engar áhyggjur, Hjalti mun að sjálfsögðu ræsa ykkur út samt.

Lokahófið:

* Mætum tímanlega:  Það verða sannkölluð gleðistundar verð hjá Mario frá klukkan 16.00-18.30, þannig að tökum fordrykkinn þar, hittumst og horfum á síðustu ráshópana koma í hús.  Það er miklu ef sem flestir taka þátt.

* Verðlaunaafhending mun hefjast kl. 18.30 að því gefnu að allt gengi eins gert er ráð fyrir.  Við hvetjum sem áður alla verðlaunahafa til að mæta og taka á móti sínum verðlaunum.

* ATH: það er frábær þátttaka í lokahófinu þannig að það verður tjaldað yfir pallinn – Það eru 8 sæti laus í matinn, skráning á skrifstofunni, fyrstur kemur-fyrstur fær – það verður geggjaður matur og þetta verður bara gaman.

Að sjálfsögðu verða veitt hin hefðbundnu verðlaun „Hafsteinn“ Meistaramótsins.  Nánari útskýringar um þau verðlaun má sjá hér. (neðst á síðunni og heitir „Æ Hafsteinn“).

Á morgun verða krýndir Meistarar – gangi ykkur sem allra best á lokadegi Meistaramótsins 2020.

Mótsstjórn.