Formannspistill

Nesklúbburinn Almennt, Póstlistar allir

Kæru félagar,

Á dögunum var haldinn aðalfundur Golfklúbbs Ness – Nesklúbbsins. Mætingin var mjög góð og sköpuðust líflegar, gagnlegar og skemmtilegar umræður á fundinum. Vil ég byrja á að þakka það traust sem mér var sýnt varðandi umboð til áframhaldandi formennsku í klúbbnum. Ég virkilega brenn fyrir klúbbinn og hef mikinn áhuga á að sjá hann halda áfram að vaxa og dafna. Að mínu mati er það aðeins hægt með opnum og góðum tengslum við ykkur, meðlimi klúbbsins.

Stjórn klúbbsins er skipuð sömu einstaklingum áfram og hefur stjórn þegar haldið fund eftir aðalfundinn og skipað í embætti, en Elsa Níelsen er áfram varaformaður, Guðrún Valdimarsdóttir gjaldkeri, Árni Vilhjálmsson ritari, Þórkatla Aðalsteinsdóttir, Jóhann Karl Þórisson og Ásgeir Bjarnason, meðstjórnendur. Einnig er búið að manna flestar nefndir klúbbsins en þetta má allt sjá nánar á heimasíðunni.

Framundan er verðugt verkefni, en árið 2024 er stórafmæli hjá Nesklúbbnum, 60 ára! Við ætlum að gera þessu afmælisári hátt undir höfði í sögu klúbbsins.  Búið er að skipa í afmælisnefnd sem mun halda utan um þau verkefni sem ákveðið verður að ráðast í af tilefni afmælisins. Viljum við einnig leita til ykkar félagsmenn og hvetja ykkur ef þið lumið á góðri hugmynd varðandi afmælið að senda hana endilega þá á netfangið afmaeli@nkgolf.is 

Búið er að birta mótaskrá næsta árs inná heimasíðu klúbbsins, þannig að þið getið farið að skipuleggja sumarið. Þar sem GSÍ hefur ekki gefið út sína mótaskrá er þetta birt með fyrirvara um breytingar. Mótahald er með nokkuð hefðbundnum hætti, Meistaramótið verður í sömu viku og síðasta sumar þó svo að það nái aðeins lengra inn í júlí. Nýtt mót mun líta dagsins ljós, en það er Minningamótið sem er til heiðurs látnum klúbbfélögum. Næsta sumar ætlum við svo að endurvekja Draumahringinn, sem verður með sérstaklega veglegum verðlaunum þetta árið í tilefni afmælisins og verður sigurvegari Draumahringsins afmælismeistari Nesklúbbsins. Eins og áður teljast inn bestu skor í mótum sumarsins á Nesvellinum á hverri holu og þannig raðast upp skor á 18 holum sem telja inn í Draumahringinn. Í Draumahringsmótinu sem haldið verður 1. september gefst svo síðasta tækifærið til að bæta skorið. Þetta verður allt kynnt betur þegar nær dregur og er  það von okkar að þátttaka verði áfram góð í mótum klúbbsins og að það sé eitthvað við allra hæfi.

Búið er að senda út póst þar sem innheimta félagsgjalda fyrir 2024 var kynnt. Þar kom m.a. að útskýring á þeirri aðalfundarsamþykkt og nýjung að félagsmenn eigi inneign á Nesvöllum að andvirði 10.000 kr. Ég skora á ykkur sem enn eigið eftir að sjá og nýta ykkur þessa frábæru inniaðstöðu að drífa í því við fyrsta tækifæri að bóka ykkur tíma og nýta inneignina og sjá hvað Nesvellir hafa upp á að bjóða.  Hægt er að bóka tíma í síma: 561-1910 og mun starfsfólk aðstoða alla og kenna þeim sem vilja á það sem golfhermarnir hafa upp á  að bjóða.

Að lokum vil ég fyrir hönd stjórnar Nesklúbbsins óska þér og þínum gleðilegra jóla um leið og við þökkum fyrir ánægjulegar stundir á árinu sem er að líða og með von í brjósti um að afmælisárið framundan verði stútfullt af ógleymanlegum minningum.

Með jóla-golfkveðju,
Þorsteinn Guðjónsson

formaður