Formannspistill

Nesklúbburinn Almennt, Póstlistar allir

Kæru félagar,

Nú er sumarið handan við hornið eins og veðrið gefur til kynna og spenningurinn að ná hámarki. Þó völlurinn sé opinn skv. vetrarreglum, þá jafnast ekkert á við það að geta slegið á brautum og inn á sumarflatir. Ég skora á þá sem eru að spila núna að ganga sérstaklega vel um völlinn og fylgja vetrarreglum sem þýðir að færa boltann af brautum og út í kargann og alls ekki slá á teigum eða inn á sumarflatir.  Öll kylfu- og boltaför sem verða til núna munu fylgja okkur inn í sumarið og auðvitað viljum við öll spila á fallegum Nesvelli þegar hann verður tilbúinn.

Inniaðstaðan okkar á Nesvöllum er opin og nú er kjörið tækifæri fyrir ykkur sem enn eiga eftir að nýta inneignina að mæta og slá sig í gang fyrir sumarið.

Margæsin er mætt í sína árlegu millilendingu á Nesvöllinn og hún mun heiðra okkur með nærveru sinni næsta mánuðinn.  Það minnir mig á það að þessa dagana erum við að panta klósett sem verður sett upp á vellinum í sumar (nei, ég er ekki svo bjartsýnn að ég haldi að við getum kennt margæsunum að nota það).

Auk margæsarinnar er hreinsunardagurinn einn af sumarboðum Nesklúbbsins. Hann er á dagskrá laugardaginn 4. maí n.k. Það fer eftir ástandi vallarins hvort hann verði þann dag eða hugsanlega viku síðar. Ég vona svo sannarlega að þátttaka í hreinsunardeginum verða jafngóð í ár og undanfarin ár. Ykkar framlag er ómetanlegt og á sama tíma gríðarlega mikilvægt fyrir klúbbinn því það er ótrúlega mikil og góð vinna sem fer fram þennan dag. Í kjölfar vinnunar sem tekur oftast í kring um 2 klukkustundir borðum við grillaðar pylsur áður en farið er í fyrsta mót sumarsins, Hreinsunarmótið.

Á dögunum hélt stjórn klúbbsins stjórnarfund í vélageymslu klúbbsins. Þar er búið að lyfta sannkölluðu grettistaki í vetur og er þar allt svo sannarlega til fyrirmyndar. Á fundinum fór Birkir vallarstjóri yfir stöðuna á vellinum og þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru í sumar. Birkir er nokkuð ánægður með það hvernig völlurinn er að koma undan vetri, þó enn séu um 15cm frostlag í jörðu og hann sé nokkuð bugðóttur vegna frosts. Hann er bjartsýnn á að frost leysi fljótt úr jörðu ef næstu dagar verða jafn hagstæðir og spár gera ráð fyrir.

Meira af vellinum, til stóð að endurhlaða glompurnar við 8. og 9. flatirnar en af óviðráðanlegum orsökum verður það ekki hægt eins og til stóð.  Þær verða engu að síður snyrtar og meiri sandur settur í þær og svo unnar eins og til stóð í haust ef allt gengur upp.   Einnig er verið að leggja lokahönd á flokkunarstöðina sem verður við klúbbhúsið. Í sumar verða engar ruslatunnur á vellinum, heldur taka leikmenn það sem þarf að henda með sér og ganga frá því í flokkunartunnurnar sem staðsettar verða við golfskálann að hring loknum.  Þetta rímar við umhverfisstefnu klúbbsins og er á mikilvægur þáttur í að völlurinn og umhverfi hans sé snyrtilegt. Ég hef tröllatrú á því að félagsmenn taki þátt í þessu heilshugar þar sem þetta er okkar allra hagur.

Að lokum vil ég bara nefna það að í ár er 60 ára afmælisár klúbbsins og munum við gera ýmislegt til hátíðabrigða. Það verður kynnt betur síðar.

Læt þessu lokið að sinni. Hlakka virkilega til að sjá ykkur á vellinum innan tíðar.

Með sumarkveðju,

Þorsteinn Guðjónsson
Formaður