Heil og sæl kæru félagar,
Bændaglíman sem fram fór núna um síðastliðna helgi er öllu jöfnu síðasta mót sumarsins og um leið áminning um að haustið sé ekki langt undan. Ánægjulegt golfsumar er að baki þótt veðrið hefði vissulega mátt vera betra, alla vega á köflum. Samt sem áður hefur völlurinn verið í frábæru standi í sumar og eiga vallarstarfsmenn miklar þakkir skildar fyrir gott starf. Heilmargt hefur borið á góma og það væri of langt mál að fanga það allt hér í stuttum pistli. Þó vil ég minnast á frábæran árangur sem náðist í barna og unglingaflokkum klúbbsins á Íslandsmótum golfklúbba í sumar. Fjöldi liða sem send voru til keppni hafa aldrei verið fleiri og eignuðumst við þar m.a. deildarmeistara í flokki stúlkna 12 ára og yngri sem endurspeglar það frábæra starf sem þar er í gangi.
Það sem helst er að frétta frá okkur í stjórn er sú vinna sem er í gangi vegna ráðningu nýs vallarstjóra. Það kom okkur vissulega á óvart að við værum að fara í þá vinnu nú í haust, en eins og annað þá er allt breytingum háð og tækifærin gera ekki alltaf boð á undan sér. Bjarni vallarstjóri hefur unnið frábært starf hjá okkur og á hann miklar þakkir skildar. Óska ég honum alls hins besta í framtíðinni. Af ráðningu nýs vallarstjóra er það að frétta að við erum virkilega ánægð með fjölda og gæði þeirra umsókna sem við fengum. Okkar bíður spennandi og krefjandi verkefni að velja hæfasta einstaklinginn til verksins.
Verkefnið sem tengist breytingu á vellinum er búið að vera í góðum farvegi. Undirbúningsvinnan að setja saman grófa verkáætlun, áætlaðan kostnað og fleira er lokið. Búið er að setja saman erindi til bæjarstjórnar og í liðinni viku átti ég góðan fund með Þór Bæjarstjóra þar sem ég meðal annars ahenti honum fyrir hönd stjórnar erindið og þar með umsókn um fjármögnun á verkinu. Við lítum svo á að þar með sé búið að opna á samtal við bæjaryfirvöld varðandi þetta verk og vonandi komumst við að góðri niðurstöðu í þessu mikilvæga máli. Starfsemi Nesklúbbsins er stórt púsl í samfélaginu hér á Nesinu. Það má ætla að í dag séu um 1.100 manns á öllum aldri virkir í starfsemi klúbbsins á einhvern hátt, langflestir búsettir hér á Seltjarnarnesi. Með þeim breytingum sem fyrir liggja erum við að stórbæta nýtingu á svæðinu sem við höfum til afnota, en aðal atriðið er þó fyrst og fremst eins og áður hefur komið fram að gera golfvöllinn að öruggari stað til golfiðkunnar.
Völlurinn verður opinn eins og veður leyfir inn í haustið. Veitingasölunni hefur formlega verið lokað en þeir Hörður og Mario munu þó hafa takmarkaða opnun í komandi viku þegar vel viðrar. Þó haustlægðir fari að plaga okkur er engin ástæða til að leggja kylfunum þar sem inniaðstaðan okkar að Nesvöllum er opin og gaman er að sjá að meðlimir eru þegar farnir að láta sjá sig og eru fjölmargir farnir að festa sér tíma fyrir veturinn. Það er ljóst að það verður góð aðsókn að Nesvöllum og hvet ég þá sem hyggjast spila reglulega í vetur að bóka sér tíma fyrr en síðar. Ég vona líka að sem flestir hafi nú þegar eða komi til með að nýta sér gjafabréfið sem sent var út í lok ágúst og gildir sem ávísun á klukkustund í golfhermunum á Nesvöllum. Gjafabréfið gildir út september og er tilvalin leið fyrir alla félagsmenn til þess að kynnast því sem í Trackman golfhermarnir hafa upp á að bjóða með aðstoð starfsmanna. Hægt er að bóka tíma til þess að nota gjafabréfið þitt með því að hringja á Nesvelli.
Með kærri kveðju,
Þorsteinn Guðjónsson
Formaður