Formannspistill

Nesklúbburinn

Ég ætla nú að taka upp þráðinn aftur og setja reglulega inn á heimasíðuna stjórnarfréttir sem eru fyrst og fremst hugsaðar til að veita félagsmönnum upplýsingar um þau málefni sem stjórn klúbbsins er að vinna að á hverjum tíma.

Skömmu eftir aðalfund skipti stjórn klúbbins með sér verkum lögum félagsins samkvæmt.  Áslaug Einarsdóttir mun áfram gegna hlutverki varaformanns, Guðrún Valdimarsdóttir verður gjaldkeri og Árni Vilhjálmsson ritari.  Aðrir stjórnarmenn eru Þorsteinn Guðjónsson, Jóhann Karl Þórisson  og Stefán Örn Stefánsson. 

Nýtt tölvu- og forgjafarkerfi:

Þetta er klárlega mál málanna í golfheiminum á Íslandi þessa daganna.  Eins og fram hefur komið hefur Golfsamband Íslands ákveðið að skipta um tölvukerfi sem haldið hefur utan um félags-, rástíma-, móta- og forgjafarkerfi golfklúbbanna og þannig allra félagsmanna í golfklúbbum á Íslandi.   Vefurinn Golf.is sem flestir ættu að þekkja er þannig dottinn út til að þjóna áðurnefndum hlutverkum og mun tölvukerfið Golfbox taka við frá og með 1. mars ef áætlanir ganga eftir.  Það tölvukerfi er notað víðsvegar um heiminn og hefur gefið góða raun. 

Nýtt forgjafarkerfi sem heitir WHS (world handicap system) mun einnig taka gildi fyrir komandi tímabil.  Þannig er verið að sameina öll forgjafarkerfi heimsins í eitt og verða hér eftir aðrar reglur en við höfum hingað til átt að venjast við útreikning forgjafar. 

Að skipta út báðum þessum kerfum mun óhjákvæmilega skapa einhverja örðuleika fyrir alla til að byrja með.  Við í stjórn klúbbsins ákváðum þó strax að reyna eftir fremsta megni að gera þetta eins einfalt og hægt er fyrir okkar félagsmenn. 

  • Þannig var í haust settur á laggirnar vinnuhópur með það að leiðarljósi að afla sér frekari þekkingar á þessum kerfum til að miðla svo til félagsmanna.  Hópurinn hefur nú þegar sótt öll þau námskeið sem haldin hafa verið á vegum GSÍ og mun gera áfram á næstu vikum.
  • GSÍ mun gefa út kynningarefni sem við munum svo veita okkar félagsmönnum aðgengi að í gegnum heimasíðu klúbbsins.
  • Helstu leiðbeiningar til notkunar á kerfinu verða kynntar á heimasíðu klúbbsins þegar kerfið verður opnað fyrir félagsmenn í byrjun mars.
  • Hægt er að kynna sér nokkuð ítarlega nýju forgjafarreglurnar á heimasíðu GSÍ á slóðinni: https://golf.is/forgjof/ eða með því að smella hér.
  • Kynningarkvöld verður haldið fimmtudaginn 26. mars í golfskálanum – þetta verður nánar auglýst síðar á heimasíðunni og með tölvupósti til félagsmanna.

Golfskálinn:

Eins og allir muna fór skálinn okkar í verulega andlitslyftingu síðasta vetur þegar salurinn var tekinn í gegn, barinn var endurnýjaður og skipt var um húsgögn.  Nú er verið að klára verkefnið og vinna dyggir sjálfboðaliðar að því að endurbæta alla salernisaðstöðu fyrir félagsmenn.  Það verður allt klárt fyrir sumarið.

Vallar- og vélamál:

Í framhaldi af nýrri samþykkt stjórnar og aðalfundar um langtímaáætlun á endurnýjun á vélakosti klúbbsins, hefur Bjarni vallarstjóri nú hafið þá vinnu.  Búið er að fjárfesta í nýjum traktor og þá hefur klúbburinn einnig eignast sláttuþjarkinn sem var til láns síðasta sumar og vann myrkranna á milli á 4. braut.  Æskilegt væri að fá fleiri slíka og er það allt saman í vinnslu hjá Bjarna ásamt öðru er heyrir undir þennan málaflokk.  Engar stærri framkvæmdir eru áætlaðar á vellinum í sumar og samkvæmt Bjarna lítur völlurinn ágætlega út eftir allar lægðirnar sem dunið hafa á landinu í vetur.  Þó vissulega geti margt gerst ennþá hjá veðurguðunum að þá getum við  ekki annað en verið bjartsýn fyrir sumarið.

Stjórnin stefnir að því að hafa reksrarafgang á árinu sem verður lagður í framkvæmdasjóð. Þetta mun gefa okkur tækifæri til að takast á við stærri framkvæmdir á vellinum í framtíðinni. Vallarnefnd mun vinna framtíðaráætlanir með vallarstjóra og verða þær kynntar félögum þegar þær liggja fyrir.

Þá má tilkynna þau gleðitíðindi að hann Steve sem var aðstoðarvallarstjóri hjá okkur í fyrrasumar hefur þegið boð okkar um að koma aftur til vinnu í sumar og koma reynslunni ríkari beint frá Ástralíu þar sem hann hefur verið að vinna í vetur og mun hefja störf á Nesvellinum um miðjan apríl.

Risið:

Eftir fremur daufa haustmánuði er búin að vera mikil umferð í inniaðstöðunni okkar á Eiðistorgi undanfarið.  Aldrei hafa fleiri krakkar og unglingar æft yfir vetrarmánuðina og það er afar ánægjulegt að sjá einnig hve duglegir félagsmenn eru að nýta golfherminn, mæta í púttmótin á sunnudögum og sækja í golfkennslu hjá þeim Nökkva og Steini Baugi.  Stjórnin ræddi um daginn möguleika á að fjölga golfhermum í Risinu og mun skoða það betur fyrir næsta vetur.

Mótaskrá:

Mótaskrá sumarsins er að mestu tilbúin og tilkynntum við um daginn á heimasíðunni hvenær bæði Hreinsunardagurinn og Meistaramótið verður haldið.  Annað bíður opnun nýs tölvukerfis en ef einhverjar spurningar eru þá er um að gera að hafa samband við framkvæmdastjóra.

Kristinn Ólafsson,
Formaður