Hinn árlegi hreinsunardagur Nesklúbbsins fór fram í dag. Metþáttaka var þar sem rúmlega 100 félagsmenn mættu og var venju samkvæmt byrjað á hinum ýmsu verkefnum á vellinum og í kringum skálann. Lagðir voru niður rúmlega 1200m2 af þökum við vélageymsluna og æfingaskýlið, borið á skálann og hann þrifinn að innan, gangstéttar sópaðar og svo margt, margt fleira sem á verkefnalistanum var. Í hádeginu var svo slegið upp pylsupartýi á pallinum í glampandi sól og fólk greinilega ánægt með að sumarið sé loks farið að láta sjá sig þó vissulega vanti nú ennþá nokkrar gráður í viðbót á hitamælinn.
Nesklúbburinn er stoltur af því óeigingjarna en um leið magnaða starfi sem allir þeir sem mættu inntu af hendi og verður það seint fullþakkað.
Eftir hádegið var svo slegið upp 9 holu texas-scramble móti þar sem tæplega 60 þátttakendur voru skráðir. Úrslit í mótinu urðu eftirfarandi:
1. sæti: Hinrik Þráinsson og Steini Steina – 31 högg nettó
2. sæti: Baldur Þór Gunnarsson og Rúnar Geir Gunnarsson – 33 högg nettó
3. sæti: Sigríður Hafberg og Ásgeir Bjarnason – 33 högg nettó