Frábærri sýningu Anniku Sörenstam á Nesvellinum lokið

Nesklúbburinn

Mikill viðbúnaður var þegar að Annika Sörenstam, einn sigursælasti kvenkylfingur sögunnar hélt golfsýningu á Nesvellinum í gær.  Búið var að setja upp áhorfendastúku fyrir á þriðja hundrað áhorfendur, afmarka stóran hluta vallarins og allt æfingasvæðið var nýtt undir bílastæði svo eitthvað sé nefnt.  Áætlað er að um 400 gestir hafi komið og fylgst með þessum sögufræga kylfingi og höfðu allir greinilega mikinn áhuga á því að heyra og sjá hvað hún hafði fram að færa.

Að taka að sér slíkan viðburð útheimtir gríðarlegan undirbúning og mikla sjálfboðavinnu.  Það var því einstök ánægja þeirra sem að viðburðinum stóðu að sjá hversu viljugir og ósérhlífnir félagsmenn Nesklúbbsins voru.  Þess má geta að Annika sjálf og forseti Golfsambands Íslands tóku það sérstaklega fram ásamt fjölda annarra að einstaklega vel hafi verið staðið að viðburðinum, bæði hvað varðar umgjörð og fjölda sjálfboðaliða.  

Öll þið sem að þessu komu hafið okkar bestu þakkir, þið eigið heiður skilið.  Þetta var til mikillar fyrirmyndar og sýnir svo óumdeilt sé að Nesklúbburinn geti með góðu móti haldið svona stórviðburð sem er sennilega einn af þeim stærri í íslenskri golfsögu.

Kveðja,
Stjórn Nesklúbbsins

 

Myndirnar sem fylgja þessari frétt eru teknar af Guðmundi Kr. Jóhannessyni.  Fleiri frábærar myndir sem hann tók má sjá á síðunni naermynd.is. 

Einnig tók Friðþjófur Helgason stórkostlegar myndir á dróna og verður öllum myndunum komið betur á framfæri von bráðar.  Bæði Guðmundur og Friðþjófur eru félagsmenn í Nesklúbbnum og hljóta bestu þakkir fyrir að færa okkur stórbrotnar minningar frá heimsókn Anniku Sörenstam á Nesvöllinn.