Fréttapunktar

Nesklúbburinn

Eftir langar vikur undanfarið getum við loksins opnað alla aðstöðu á Nesvellinum núna á mánudaginn.  Golfskálinn verður opnaður, boltavélin verður opnuð og þá verður opnað inn á sumarflatir og teiga í fyrsta skipti þetta árið.

VÖLLURINN: Eins og áður hefur verið gefið út er völlurinn gríðarlega viðkvæmur þessa dagana.  Það eru því ekki bara tilmæli heldur skylda hvers og eins að setja torfusnepla í kylfuförin og að gera við boltaför á flötunum. 

RÁSTÍMAR: Helstu breytingarnar hjá okkur verða rástaskráningar til að geta leikið á vellinum.  Til að bóka rástíma þarf að fara í gegnum nýja tölvukerfið GOLFBOX og eru vonandi allir búnir að virkja aðgang sinn þar.  Ef ekki að þá skaltu smella hér.

Athugið að rástímabókanirnar taka ekki gildi fyrr en völlurinn opnar á mánudaginn.  Það er því um að gera að prufa núna að bóka sig á rástíma yfir helgina, venjast viðmótinu og kerfinu því það eru engar skuldbindingar – þeir tímar eru ekki virkir hvort eða er. 

  • Bókaðar eru 9 holur í hvert sinn.  Vilji fólk leika 18 holur skal bóka seinni 9 holurnar að lágmarki 2 klst. og 20 mínútum síðar.

POKAMERKIN: Tafir urðu við framleiðslu pokamerkjanna en þau eru komin í hús og verða borin út eftir helgi til þeirra félagsmanna sem hafa greitt félagsgjöld.  Með pokamerkinu fylgja einnig upplýsingar sem eru leiðbeinandi við golfleik á Íslandi eftir 4. maí.

HREINSUNARDAGURINN: Hreinsunardagurinn mun fara fram laugardaginn 9. maí.  Hvernig hann verður útfærður verður gefið út eftir helgi en gera má ráð fyrir að deginum verði skipt upp til þess að forðast hópamyndanir. 

MÓTASKRÁIN: Ennþá er beðið eftir að hin sér íslenska útgáfa af Golfbox til mótahalds verði tilbúin.  Þangað til verður beðið með að stofna mótin inni í kerfinu.  Þeir sem hafa skráð sig í þau mót sem þar hafa nú þegar verið stofnuð munu þurfa að skrá sig aftur þegar kerfið verður tilbúið.

GOLFSKÁLINN: Skálinn verður eins og áður sagði opnaður á mánudaginn og verður húsgögnum stillt upp eftir fremsta megni eins og leiðbeiningar gera ráð fyrir.  Við minnum á að nú hafa reykingar verið bannaðar á pallinum og á stéttinni vestan megin (við 1. teig) við skálann.

ÆFINGAR: Æfingar hjá krökkum og unglingum munu hefjast í næstu viku.  Þar til að skólum lýkur verða sömu æfingatímar og voru í vetur.

VEITINGASALAN: Veitingasalan verður til að byrja með opin frá kl. 08.30 og fram á kvöld.  Það verður aðeins metið eftir veðri svona í byrjun tímabils.   Mario er hreint út sagt að fara yfir um því hann hlakkar svo til að taka á móti ykkur með nýjan matseðil þannig að munið að heilsa upp á hann.