Höddi Trausta sér um veitingasöluna í sumar

Nesklúbburinn

Kristinn Ólafsson, formaður Nesklúbbsins skrifaði í morgun undir samning við þá Hörð Traustason og Mario Robek um rekstur veitingasölu klúbbsins til næstu tveggja ára.  Hörður er mörgum kylfingum kunnugur enda hokinn af reynslu á rekstri veitingasölu golfklúbba og víðar.  Hann hefur til fjölda ára séð um veitingasölur Golfklúbbs Reykjavíkur við frábæran orðstír, fyrst í Grafarholtinu og nú undanfarin ár á Korpúlfsstöðum þar sem Mario sem er kokkur að mennt hefur séð um eldamennskuna.  

Þá er Hörður einnig öllum hnútum kunnugur hér hjá Nesklúbbnum enda er hann uppalinn seltirningur og var faðir hans, Trausti Víglundsson þjónn og Kristín kona hans, lengi vel með veitingasöluna á Nesvellinum.  Síðar tók fyrst systir Harðar og svo Hörður sjálfur yfir þann rekstur og rak til margra ára.  Það má því með sanni segja að Höddi sé kominn aftur á heimaslóðir og bjóðum við hann innilega velkominn aftur heim.

Eins og fram hefur komið er staðið í ströngu þessar vikurnar á endurnýjun á öllum innviðum golfskálans.  Það verður því gaman að geta boðið félagsmönnum og öðrum gestum upp á frábærar veitingar í „nýja“ skálanum ykkar í sumar.