Kynningar frambjóðenda til stjórnar á aðalfundi NK 2018

Nesklúbburinn

Aðalfundur klúbbsins verður haldinn næstkomandi fimmtudag kl. 19.30 í klúbbhúsinu.  Á fundinum verður samkvæmt lögum félagsins kosið til stjórnar.  Eins og áður hefur komið fram bárust kjörnefnd fundarins samtals 8 framboð, þ.a. eitt til formanns og sjö til stjórnar. Frambjóðendum gafst kostur á því að kynna sig hér á heimasíðu klúbbsins fyrir fundinn og má sjá þær kynningar hér neðar.

Til formanns: Kristinn Ólafsson

Til stjórnar:

  • Árni Vilhjálmsson
  • Dagur Jónasson
  • Garðar Jóhannsson
  • Jóhann Karl Þórisson
  • Oddur Óli Jónasson
  • Stefán Örn Stefánsson
  • Þuríður Halldórsdóttir

Kynningar frá frambjóðendum er eftirfarandi.

Kristinn Ólafsson

Undirritaður gefur kost á sér í sæti formans Nesklúbbsins.  Undafarin þrjú ár hef ég gengt embætti formans og hef ég í störfum mínum leitast við að tryggja góðan og sjálfbæran rekstur klúbbsins. Einnig hefur uppbygging vallarins verið í forgrunni ásamt inniaðstöðu. Klúbburinn hefur náð góðum árangri á mörgum sviðum en það eru ávallt nýjar áskoranir framundan og mun ég leggja mig allan fram með nýrri stjórn að takast á við þær með hag félaga Nesklúbbsins í huga sem og að tryggja áfram þann mikla félagsanda sem í klúbbnum hefur ríkt undanfarin ár.

Árni Vilhjálmsson

Ég hef verið meðstjórnandi í stjórn Nesklúbbsins síðastliðinn tvö ár og gef kost á mér til áframhaldandi stjórnarsetu.  Þótt ótrúlegt sé, miðað við getu, hef ég verið í golfinu í rúm þrjátíu ár. Ég gekk upphaflega í Nesklúbbinn 1996 og hef fram til þess að ég tók sæti í stjórninni ekkert skipt mér af hinum félagslega þætti golfsins.  Mér finnst ánægjulegt að taka þátt í þessu starfi er reiðubúinn til þess að halda því áfram með góðu fólki.  Ég á jafnframt aukaaðild að Golfklúbbi Kiðjabergs.

Dagur Jónasson

Dagur Jónasson heiti ég og hef verið meðlimur í Nesklúbbnum síðan 2004. Ég hef keppt fyrir hönd Nesklúbbsins á unglingamótum GSÍ ásamt þáttöku í liði Nesklúbbsins í Íslandsmóti Golfklúbba. Á þeim árum sem ég var í unglingstarfi klúbbsins var staðið við bakið á okkur og á þeim tíma hafa mótast frábærir kylfingar sem eru meðal fremstu golfara landsins. Ásamt því að hafa stundað golf sem áhugamál og keppinsíþrótt hef ég starfað hjá Nesklúbbnum í 12 ár eða frá árinu 2007. Á þeim tíma hef ég unnið sem yfirmaður æfingasvæðis, leiðbeinandi á krakkanámskeiðum, vallarvörður og sem vallarstarfsmaður í 7ár. Á þeim tíma hef ég fengið mikla og góða innsýn í rekstur golfklúbbsins og séð hvernig starfsemin gengur fyrir sig. Á síðust árum hef ég einning hjálpað mikið til við tölvur og tölvukerfi golfklúbbsins.

Sem meðlimur í Nesklúbbnum býð ég mig fram til stjórnarsetu í klúbbnum. Ég tel mig get hjálpað klúbbnum að ná settum markmiðum, s.s. móta langtíma skipulag um þróun og framkvæmdir vallarins, tryggja umhverfisvottun hjá GEO og öflugt unglingastarf. Fyrir utan golfið þá stunda ég nám við Háskólan í Reykjavík þar ég er að læra Viðskiptafræði með tölvunarfræði sem aukagráðu. Ásamt því vinn ég sem kaffibarþjónn á Kaffi Laugalæk.

Garðar Jóhannsson

Ástæður framboðs:

  • Framboð nýrra aðila til stjórnarstarfa í félögum tryggir endurnýjun, áherslubreytingar og aðhald. Það er hollt fyrir alla að hafa þar gott val.
  • Margt er í góðum farvegi hjá NK en annað þarfnast úrbóta og/eða breytinga við. Auk almenns áhuga hefur undirritaður sérstakan áhuga fyrir nokkrum afmörkuðum málum sem hann vill leggja lið.
  • Undirritaður hefur áralanga reynslu af rekstri. Þessa reynslu vil ég nýta NK til framdráttar á sviði rekstrar, aðstöðu og félagsumhverfis.

Áherslumál

  • Málefni golfskálans hvort heldur er veitingasala, félagsaðstaða eða önnur nýting aðstöðunnar þarf nýrrar hugsunar við. Umgjörð, ásýnd og rekstur skálans hafa gefið eftir. Aðstaða og rekstur jafnt innan- sem utanhúss er undirrituðum hugleikin. Ný nálgun skapar ný tækifæri til rekstrar- og félagsstarfsemi öllum til hagsbóta.
  • Undirritaður vill setja á stofn markaðs- og fjáröflunarnefnd. Slík nefnd hefði fyrst og fremst það hlutverk að leita leiða til breikkunar tekjustofna og styðja við framkvæmdastjóra í markaðs- og tekjuöflunarstarfi.
  • Öryggismál á leikvelli og við æfingaaðstöðu eiga að vera í öndvegi og eins góð og kostur er á hverjum tíma. Gerðir hafa verið góðir hlutir í þessum málaflokki. Eftir sem áður er ráðrúm til frekari aðgerða.
  • Æfingaskýli þarfnast upplyftingar, einkum gagnvart aðstöðu og umhirðu.
  • Efnt verði til árlegs félagafundar, utan aðalfundar, þar sem helstu áherslu- og stefnumál verði kynnt og félögum gefinn kostur, í opnum umræðum, á að koma á framfæri hugmyndum er lúta að rekstri og framþróun klúbbsins.

Gerum góðan golfklúbb betri með fjölbreyttum áherslum og jákvæðu viðhorfi félagsmanna. Við erum klúbburinn.

Jóhann Karl Þórisson

Kæru kylfingar ég Jóhann Karl Þórisson hef setið sem varamaður í stjórn Nesklúbbsins undanfarin tvö ár. Auk þess að sækja stjórnarfundi hef ég setið í vallarnefnd síðastliðin tvö ár. Ég hef verið félagi í Nesklúbbnum frá árinu 2008

Á árunum 2006-2015 var ég formaður golfklúbbsins Geysis sem er með aðsetur á Haukadalsvelli við Geysi í Haukadal, sem formaður tók ég þátt í störfum og nefndum á vegum GSÍ sótti formannafundi og GSÍ þing hélt fjölmörg golfmót og stýrði m.a Sveitakeppni 4 deildar sem haldin var 2009.

Ég hef ávallt hafti mikinn áhuga á félagsmálum en auk starfana í GEY hef ég verið formaður í Golfklúbbi Lögreglunnar til 15 ára og er varaformaður i íþróttasambandi lögreglumanna þar sem golfið er á minni könnu.

Ég hef lagt mitt af mörkum við móthald Nessklúbbsins síðast liðin ár með því að vera í mótstjórn ýmissa móta tekið að mér sjálfboðavinnu ásamt fleirum til þess að þú kæri kylfingur og aðrir geti notið þess að leika í mótum klúbbsins áhyggjulaus. Ég tók að mér að vera Mótstjóri í Meistarmóti Nesklúbbsins 2018 sem var afar gaman.

Eins og þú sérð kæri kylfingur þá bý ég yfir mikilli reynslu af stjórnarstörfum og starfi innan golfhreyfingarinnar og er tilbúinn til að starfa áfram í þína þágu og Nesklúbbsins og miðla af þekkingu minni og reynslu til að gera gott starf Nesklúbbsins enn betra. Ég óska því eftir þínum stuðningi kæri kylfingur er þú greiðir atkvæði á aðalfundinum sem framundan er.

Stefán Örn Stefánsson

Í fyrsta sinn, síðan við hjónin gerðumst félagar í Nesklúbbnum árið 2006, getum við ekki verið viðstödd aðalfund klúbbsins, þykir okkur það verulega miður, en við erum stödd erlendis. Ég hef reynt að vera virkur félagi allt frá fyrsta degi og tekið þátt í fjölmörgum verkefnum bæði verklegum og félagslegum fyrir klúbbinn, það hefur verið einstaklega ánægjulegt og gefandi.

Nesklúbburinn hefur í mínum huga algera sérstöðu hvað varðar jákvæða félagsvitund, konur og menn í klúbbnum eru ávallt tilbúin til að leggja sitt fram þegar eftir er kallað, ég hef margoft leitað eftir aðstoð félaga við hin ýmsu verkefni fyrir klúbbinn og ég man ekki eftir neitun, sem er einstakt, ég vil viðhalda þessu hugarfari og þessari sérstöðu.

Ég hef verið í aðalstjórn sl. tvö ár og  átt mjög ánægjulegt og árangursríkt samstarf við félaga mína þar, mikið hefur verið framkvæmt og margt bætt. Ég hef verið formaður vallarnefndar sl.tvö ár, í mótanefnd í 8 ár, afmælisnefnd á 50 ára afmæli klúbbsins ásamt því að hafa verið liðsstjóri í mörgum sveitakeppnum fyrir hönd klúbbsins. o.s.frv.   Framundan eins og hingað til eru margar áskoranir og mörg verkefni sem að ég er tilbúin að takast á við, öll með sama markmiði: að Nesvöllurinn verð áfram í fremstu röð íslenskra golfvalla og með þeim einstaka félagsanda sem hér hefur ríkt. Ég gef kost á mér til áframhaldandi starfa fyrir Nesklúbbinn, ég bið ykkur félagana um ykkar stuðning.

Þuríður Halldórsdóttir

Ég, Þuríður Halldórsdóttir, hef setið í stjórn Nesklúbbsins síðustu 3 árin og hef ákveðið að gefa kost á mér áfram. Fékk inngöngu í klúbbinn árið 2000 og frá því hef ég látið mig starf hans miklu varða.

Hef meðal annars verið í kvennanefnd og formaður hennar í nokkur ár.

Ég er jákvæð, metnaðarfull og heiðarleg og á auðvelt með mannleg samskipti sem hefur nýst mér vel í gegnum tíðina. Ég hef verið í liði klúbbsins í Sveitakeppni eldri kylfinga síðustu 10 árin.

Ég bjó á Nesinu í 23 ár og held tryggð við Nesklúbbinn þó svo ég hafa flutt mig um set árið 2006. Ég hef mikinn áhuga á að fylgja eftir þeirri góðu vegferð sem klúbburinn hefur verið á síðustu ár.

Höldum áfram að gera okkar frábæra golfklúbb enn betri.