Meistaramót: föstudagur – úrslit og staða fyrir lokadag

Nesklúbburinn

Það má með sanni segja að kylfingar hafi upplifað öll veður á næst síðasta keppnisdegi meistaramóts Nesklúbbsins 2014. Oft er því fleygt að ef einhverjum líki ekki veðrið, eigi sá hinn sami að hinkra í korter. Það átti svo sannarlega við í dag, nema kannski um miðbik dags. 

Dagurinn byrjaði vel fyrir meistaraflokkana, nokkuð lyngt í veðri og ágætis hiti. Á hádegi þegar byrjað var að ræsa út 2. flokk karla gerði gríðarlegt úrhelli sem stóð hátt í tvo tíma. Á tímabili stóð tæpt að hægt væri að halda leik áfram vegna bleytu á vellinum. Rétt fyrir klukkan tvö stytti aftur á móti upp nógu lengi til að hægt væri að halda áfram. Á tímabili var veðrið orðið svo gott að kappklæddir kylfingar áttu í mestu erfiðleikum þar sem fáir voru klæddir á þann veg að þola sól, logn og 17 stiga hita. 

Meistaraflokkur kvenna fór fyrstur út klukkan sjö í morgun. Eins og áður segir voru aðstæður fínar snemma í morgun og nýttu kylfingar sér það til hins ýtrasta. Helga Kristín Einarsdóttir er enn í forystu og hefur leikið hringina þrjá á samtals 228 höggum. Önnur er Helga Kristín Gunnlaugsdóttir á 243 höggum og Sigrún Edda Jónsdóttir þriðja á 257 höggum. Nöfnurnar spiluðu báðar frábært golf í dag og voru báðar á um og yfir 40 punktum. 

  Meistaraflokkur kvenna D1 D2 D3 Samtals
1.
Helga Kristín Einarsdóttir 76 79 73 228
2. Helga Kristín Gunnlaugsdóttir 86 82 75 243
3. Sigrún Edda Jónsdóttir 90 85 82 257
4.
Ágústa Dúa Jónsdóttir 89 93 88 270
5. – 6. Oddný Rósa Halldórsdóttir 94 95 87 276
5. – 6. Ragna Björg Ingólfsdóttir 91 89 96 276
7. Þyrí Valdimarsdóttir 93 95 93 281

Meistaraflokkur karla var næstur í röðinni í morgun. Besta skor í dag áttu Ólafur Björn Loftsson og Dagur Jónasson, en þeir spiluðu báðir á 70 höggum. Ólafur Björn Loftsson er í forystu fyrir lokahringinn en hann hefur spilað hringina þrjá á 212 höggum, 11 höggum betur en Guðmundur Örn Árnasaon sem er annar. Þriðji er Oddur Óli Jónasson á 224 höggum. Það er ekki víst að Ólafur Björn fái mikla keppni um fyrsta sætið á morgun en það er ljóst að það verður mikil keppni um næstu sæti. 

  Meistaraflokkur karla D1 D2 D3 Samtals
1.
Ólafur Björn Loftsson 74 68 70 212
2. Guðmundur Örn Árnason 75 75 73 223
3. Oddur Óli Jónasson 78 75 71 224
4. – 5. Dagur Jónasson 78 79 70 227
4. – 5. Steinn Baugur Gunnarsson 72 80 75 227

Ennþá er gríðarleg spenna í fyrsta flokki karla og margir kylfingar á svipuðu róli. Einar Þór Gunnlaugsson er efstur fyrir lokahringinn á 239 höggum. Höggi á eftir Einari er Hallur Dan Johansen og tveimur höggum á eftir Halli er Arngrímur Benjamínsson. Stutt er í næstu menn og það verður gaman að fylgjast með lokahringnum á morgun. 

  1. flokkur karla D1 D2 D3 Samtals
1.
Einar Þór Gunnlaugsson 85 79 75 239
2. Hallur Dan Johansen 83 81 76 240
3. Arngrímur Benjamínsson 85 79 78 242
4. Eiður Ísak Broddason 84 79 81 244
5. – 6. Hinrik Þráinsson 83 84 81 248
5. – 6. Jónatan Jónatansson 83 84 81 248

Drengjaflokkur 15-18 ára var síðasti flokkur út fyrir hádegi. Gunnar Geir Baldursson var í forystu allan tímann og hafði sigur, en hann spilaði á 344 höggum samtals. Sigurður Örn Einarsson varð annar á 355 höggum og Sverrir Anton Arason þriðji á 380 höggum. 

  Drengir 15 – 18 ára D1 D2 D3 D4 Samtals
1.
Gunnar Geir Baldursson 88 85 82 89 344
2. Sigurður Örn Einarsson 93 84 93 85 355
3. Sverrir Anton Arason 90 94 104 92 380

Það var svo eins og skrúfað væri frá krana þegar annar flokkur karla hóf leik á hádegi. Gríðarlegt úrhelli gerði eins og áður segir sem stóð allt of lengi að mati flestra. Það sáust þó frábær tilþrif inn á milli en enginn spilaði betur en Björgólfur Jóhannsson en hann fór hringinn á 78 höggum og hafði rigningin og kaflaskipt veður greinilega mjög jákvæð áhrif á hhann. Efstur fyrir lokahringinn er Eyjólfur Sigurðsson á 256 höggum. Annar er Heimir Örn Herbertsson höggi á eftir Eyjólfi og höggi þar á eftir er Sigurður H B Runólfsson. Það eru einungis örfá högg sem skilja menn að í þessum fjölmenna flokki og það verður gaman að sjá hverjir enda í verðlaunasætum. 

  2. flokkur karla D1 D2 D3 Samtals
1.
Eyjólfur Sigurðsson 90 84 82 256
2. Heimir Örn Herbertsson 93 83 81 257
3. Sigurður H B Runólfsson 85 87 86 258
4. Björgólfur Jóhannsson 94 89 78 261
5. Björn Birgir Þorláksson 87 91 84 262

1. flokkur kvenna rak lestina í dag, en kylfingar í þeim flokki voru svo ljómandi heppnir að það hætti að rigna nánast um leið og þeir hófu leik. Matthildur María Rafnsdóttir stóð uppi sem sigurvegari í þessum flokki en hún var í forystu frá fyrsta degi og vann að lokum öruggan sigur. Í öðru sæti varð Erla Ýr Kristjánsdóttir og Þuríður Halldórsdóttir varð þriðja. 

 

  1. flokkur kvenna D1 D2 D3 D4 Samtals
1.
Matthildur María Rafnsdóttir 87 97 87 80 351
2. Erla Ýr Kristjánsdóttir 88 97 93 95 373
3. Þuríður Halldórsdóttir 90 102 95 93 380

 Á morgun laugardag er lokadagur meistaramóts 2014, en þá ráðast úrslit í Meistaraflokkum karla og kvenna og 1. og 2. flokki karla. Veðurhorfur eru ágætar og við hvetjum fólk til að mæta og fylgjast með okkar bestu kylfingum, en rástíma má sjá hér á síðunni.