Meistaramót: laugardagur

Nesklúbburinn

Í dag laugardag fór fram lokadagur meistaramóts Nesklúbbsins 2014. Mikil spenna var fyrir lokahringinn í flestum flokkum og hélst hún alveg fram á lokaholur þegar úrslit voru ljós. 

2. flokkur karla fór út snemma í morgunsárið. Þar var keppni mjög hörð og margir kylfingar sem áttu möguleika á verðlaunasæti. Þegar upp var staðið höfðu orðið sætaskipti í öllum verðlaunasætum og þurfti bráðabana til að skera úr um 2. sætið. Þar áttust við Eyjólfur Sigurðsson og Björgólfur Jóhannsson. Þar fóru leikar þannig að Eyjólfur hafði betur á fyrstu holu bráðabana og lenti í öðru sæti. Þess má geta að Málfríði, eiginkonu Björfgólfs, hafði dreymt fyrir þriðja sætinu síðastliðna nótt, en Björgólfur vill reyndar frekar kenna mistökum kylfusveinsins um að hafa ekki náð öðru sætinu. Líklega verður deilt um þetta mál eitthvað fram eftir sumri. 

  2. flokkur karla D1 D2 D3 D4 Samtals
1.
Heimir Örn Herbertsson 93 83 81 84 341
2. Eyjólfur Sigurðsson 90 84 82 86 342
3. Björgólfur Jóhannsson 94 89 78 81 342

Í fyrsta flokki karla var einnig mikil keppni og úrslit langt í frá ráðin fyrir lokahringinn. Þar var það enda einnig svo að sætaskipti urðu í öllum verðlaunasætum. Hallur Dan Johansen spilaði best allra í dag á 79 höggum og tryggði sér sigur með góðum hring. Hallur spilaði á samtals 319 höggum, þremur höggum betur en Einar Þór Gunnlaugsson sem varð annar. Eiður Ísak Broddason varð þriðji á 324 höggum. 

  1. flokkur karla D1 D2 D3 D4 Samtals
1.
Hallur Dan Johansen 83 81 76 79 319
2. Einar Þór Gunnlaugsson 85 79 75 83 322
3. Eiður Ísak Broddason 84 79 81 80 324

Í meistaraflokki kvenna má segja að úrslit hafi verið ráðin, allavega hvað varðar fyrsta og annað sætið. Klúbbmeistarinn frá því í fyrra, Helga Kristín Einarsdóttir, var með gott forskot í fyrsta sæti frá fyrsta degi og hélt því til leiksloka. Helga spilaði hringina þrá á 306 höggum, þrettán höggum betur en nafna hennar Helga Kristín Gunnlaugsdóttir sem varð önnur. 

  Meistaraflokkur kvenna D1 D2 D3 D4 Samtals
1.
Helga Kristín Einarsdóttir 76 79 73 78 306
2. Helga Kristín Gunnlaugsdóttir 86 82 75 76 319
3. Ágústa Dúa Jónsdóttir 89 93 88 95 365

Í meistaraflokki karla má einnig segja að úrslit hafi verið nánast ráðin, allavega hvað fyrsta sætið varðar. Ólafur Björn Loftsson fór inn í lokahringinn með 11 högga forskot og ljóst að hann myndi ekki láta það af hendi. Sú varð raunin og Ólafur spilaði best allra í dag á 67 höggum og sigraði nokkuð örugglega. Ólafur Björn spilaði hringina fjóra á 279 höggum. Guðmundur Örn Árnason varð annar á 293 höggum samtals, en Guðmundur Örn spilaði gott og stöðugt golf alla dagana og átti næst best skor dagsins, 70 högg. Þriðji varð Oddur Óli Jónasson á 299 höggum. 

  Meistaraflokkur karla D1 D2 D3 D4 Samtals
1.
Ólafur Björn Loftsson 74 68 70 67 279
2. Guðmundur Örn Árnason 75 75 73 70 293
3. Oddur Óli Jónasson 78 75 71 75 299

Vel heppnuðu meistaramóti er nú lokið. Þó að veðrið hafi strítt okkur kylfingum þá var það hvergi nærri eins slæmt og óttast var og mátti á köflum ekki á milli sjá hvort að norska eða íslenska veðurspáin hafi verið vitlausari.

Sjáumst öll að ári!