Nokkrar golfreglur á Nesvellinum sem gott er að kunna

Nesklúbburinn

Það vill enginn í því að fá dæmt á sig víti eða hvað þá að fá frávísun úr móti vegna þess að hafa ekki farið eftir settum golfreglum.  Í hverju Meistaramóti koma upp fyrirspurnir til dómara mótsins um stöður og atvik sem upp kunna að koma.  Í langflestum tilfellum eru þetta atriði er varða hliðarvatnstorfæruna á 3. braut og svo eitthvað sem tengist hælum/stikum á vellinum.  

Erling Sigurðsson, félagsmaður í Nesklúbbnum og héraðsdómari hefur tekið saman útskýringar á hvoru tveggja og hvetjum við alla félaga klúbbsins að kynna sér þetta eftir bestu getu og þá sérstaklega núna þátttakendur í Meistaramótinu. Samantektina um 3. braut má sjá með því að smella hér og samantektina um hæla og stikur má sjá hér að neðan:

HÆLAR OG STIKUR Á NESVELLINUM

Munum alltaf að ef hæll er tekinn upp VERÐUR að ganga frá honum aftur á sama stað.

Einfaldasta leiðin til að muna regluna er:
Taka má upp alla hæla NEMA fjarlægðarhæla og vallarmarkahæla.

Undantekning á Nesvelli.

Bláir hælar með grænum toppi á 9. braut og fyrir aftan 6.flöt eru óhreyfanlegar hindranir ef boltinn er utan markaðs svæðis og ekki þarf að standa innan í reitnum, lyftið bolta og látið falla innan einnar kylfulengdar frá næsta stað sem veitir  fulla lausn.

Fjarlægðarhælar.

Lendi leikmaður í því að fjarlægðarhæll trufli stöðu eða sveiflusvið, fær leikmaðurinn lausn sem felst í því að lyfta bolta og láta falla innan einnar kylfulengdar frá næsta stað sem veitir fulla lausn.

Á milli 5. og 8. brautar.

eru hvítir hælar sem marka vallarmörk 8. brautar.

Lendi bolti leikmanns sem leikur einhverja aðra braut en 8. braut þannig að staða eða sveiflusvið truflist, fæst lausn, lyftið bolta og látið falla innan einnar kylfulengdar frá næsta stað sem veitir fulla lausn.

Ath. einn fótur undir mastri á milli 5. og 8. er slíkur hæll.

Brot á reglu er 2 högg í víti í höggleik og holutap í holukeppni.

Holunúmer miðast við 9 holu hring, sama gildir að sjálfsögðu á seinni hring.

Athugið aldrei má láta falla nær holu

Ekki fæst lausn ef hæll er í fyrirhugaðri leiklínu.

Svo er bara að passa að mæta alltaf tímanlega fyrir settan rástíma og að merkja boltann sinn þannig að maður sé viss um að réttum bolta sé ávallt leikið, góða skemmtun.