Ný teigmerki á Nesvellinum

Nesklúbburinn

Eins og kynnt var á félagafundunum í vor verða teknar í notkun nýjar teigmerkingar á Nesvellinum í sumar.  En hvað nákvæmlega þýða þessar tölur á nýju teigmerkjunum og afhverju er verið að skipta þeim gömlu út?

Tillagan kom upphaflega frá Golfsambandi Íslands vorið 2015.  Þannig vildi Golfsambandið beina því til allra golfklúbba á landinu að sameinast um að hætta með litakerfið (gult, rautt og brúnt) á teigmerkingunum og fara í staðinn í merkingar í tölum sem segja til um lengdir vallanna.  Þannig eru gömlu gulu teigarnir á Nesvellinum nú merktir 53 sem segir okkur að völlurinn af þeim teig er um 5.300 metrar að lengd.  Þar sem áður voru rauðir teigar eru nú teigarnir merktir 47 (4710 metrar) og þar sem voru brúnir teigar eru nú teigarnir merktar 36 (3662 metrar).  

Ástæðan fyrir breytingunni er einkum sú að hvetja kylfinga til að velja sér teig óháð kyni sem hentar þeirra getustigi og högglengd. Fyrirmyndin er sótt til Norðurlanda þar sem þetta fyrirkomulag hefur reynst ákaflega vel.

Sumarið 2015 tóku þrír klúbbar upp þetta kerfi við mjög góðar undirtektir en það voru Golfklúbburinn Oddur, Golfklúbbur Akureyrar, Golfklúbbur Grindavíkur og Golfklúbburinn á Flúðum.  Í ár mun ásamt Nesklúbbnum Golfklúbbur Suðurnesja taka upp þetta kerfi og svo munu fleiri og vonandi allir klúbbar landsins fylgja í kjölfarið.