Oddur Óli sigraði Einvígið á Nesinu

Nesklúbburinn

Einvígið á Nesinu – Shoot out fór fram á Nesvellinum í frábæru veðri í dag.  Þetta var í 20. skiptið sem mótið er haldið og eins og ávallt til styrktar góðu málefni.  Venju samkvæmt léku þeir kylfingar sem boðið var í mótið 9 holu höggleik í morgun.  þar lék Aron Snær Júlíusson best allra eða á 31 höggi eða á fimm höggum undir pari vallarins. Næstir komu svo þeir Úlfar Jónsson á 32 höggum og Oddur Óli Jónasson á 33 höggum.

Eftir hádegið hófst svo Einvígið sjálft þar sem einn keppandi dettur út á hverri holu þar til tveir berjast um sigurinn á 9. holu.  Að móti loknu var verðlaunaafhending og keppendum afhendur þakklætisvottur fyrir þátttökuna.  Mótið er eins og áður sagði fyrst og fremst góðgerðarmót og afhenti Atli Einarsson, framkvæmdastjóri DHL á Íslandi Hákoni Hákonarsyni frá Umhyggju ávísun upp á eina milljón króna en Umhyggja er félag sem vinnur að bættum hag langveikra barna og fjölskyldna þeirra.

Úrslit í einvíginu urðu eftirfarandi:

1. sæti – Oddur Óli Jónasson, NK
2. sæti – Aron Snær Júlíusson, GKG
3. sæti – Björgvin Sigurbergsson, GK
4. sæti – Úlfar Jónsson, GKG
5. sæti – Kristján Þór Einarsson, GM
6. sæti – Hlynur Geir Hjartarson, GOS
7. sæti – Arnór Ingi Finnbjörnsson, GR
8. sæti – Karlotta Einarsdóttir, NK
9. sæti – Alfreð Brynjar Kristinsson, GKG
10. sæti – Ragnhildur Sigurðardóttir, GR