Opna Coca-Cola mótið, elsta opna golfmót á Íslandi var haldið á Nesvellinum í dag. Þrátt fyrir dálitla rigningu inn á milli var fínt veður, völlurinn góður og því flestar forsendur fyrir góðum skorum hjá þátttakendum. Opna Coca-Cola mótið sem var fyrst haldið árið 1961, hefur verið haldið allar götur síðan og því var þetta í 53. skiptið sem mótið fer fram. Upphaflega var mótið 72. holu höggleikur með og án forgjafar en var á sínum tíma breytt í tveggja daga mót með sama leikfyrirkomulagi. Undanfarin ár hefur mótið aftur á móti verið eins dags mót þar sem ennþá er keppt í höggleik með og án forgjafar og er eflaust eitt af fáum mótum á Íslandi í dag þar sem ekki eru veitt verðlaun fyrir punktakeppni.
Mótið í dag heppnaðist afar vel og komust færri að en vildu. Veitt voru verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í hvorum flokki ásamt nándarverðlaunum á par 3 brautum. Sigurvegari án forgjafar var Sigurjón Arnarsson GR, en hann lék á 68 höggum eða fjórum höggum undir pari. Í keppni með forgjöf sigraði Þórarinn Sveinsson úr Nesklúbbnum. Þórarinn sem fyrir mótið í dag var með 17 í vallarforgjöf lék ákaflega vel eða 83 höggum brúttó og því á 66 höggum nettó. Þórarinn lék að mestu mjög jafnt golf allan hringinn og þrátt fyrir örlítið „óhapp“ á 18. og síðust holu mótsins hjá honum má hann gera ráð fyrir dágóðri forgjafarlækkun eftir mótið.
Annars voru helstu úrslit eftirfarandi:
Höggleikur án forgjafar:
1. sæti – Sigurjón Arnarson, GR – 68 högg
2. sæti – Helgi Runólfsson, GK – 73 högg
3. sæti – Haukur Óskarsson, NK – 75 högg
Höggleikur með forgjöf:
1. sæti – Þórarinn Sveinsson, NK – 66 högg
2. sæti – Sigurður Örn Einarsson, NK – 68 högg
3. sæti – Sigurjón Arnarsson, GR – 68 högg
Nándarverðlaun:
2./11. braut – Björn Jónsson, NK – 1,30 metra frá holu
5./14. braut – Siggeir Vilhjálmsson, GO – 2,25 metrar frá holu