Stjórnarfréttir

Nesklúbburinn

Miðvikudaginn 13. febrúar var 3. fundur starfsársins haldinn. Mörg mál lágu fyrir og fer hér á eftir það helsta sem fjallað var um og/eða ákveðið.

Nefndaskipan og starfsbréf nefnda. Lokið er skipan í allar nefndir á vegum klúbbsins að kvennanefnd undanskilinni, en ákveðið var að bíða með endanlega skipan hennar fram yfir dömukvöldið sem halda á föstudagskvöldið 8. mars.

Verið er að ganga endanlega frá starfsbréfum nefndanna og verða þau send á nefndarmenn innan skamms.

Formenn fastanefnda eru Baldur Gunnarsson forgjafarnefnd, Haukur Óskarsson mótanefnd, Egill Jóhannsson aganefnd, Kristinn Ólafsson umhverfisnefnd og Einar Magnús Ólafsson vallarnefnd. Auk þess verða starfandi á þessu ári fatanefnd, húsnefnd, foreldraráð og afmælisnefnd.

Nánari upplýsingar um nefndaskipanina verður fljótlega komin inn á nkgolf.is.

Framkvæmdir við völlinn. Eins og margir Nesbúar hafa tekið eftir að undanförnu eru jarðvegsframkvæmdir hafnar á Hrólfsskálamel. Klúbbnum stendur til boða að nýta efni sem þar fellur til með lágmarkstilkostnaði. Þess vegna hefur verið hafist handa við endurnýjun á 7. teig og neðri hluta 8. teigs en hvort tveggja eru framkvæmdir sem höfðu verið á dagskrá. Jafnframt hefur verið sótt um leyfi til bæjaryfirvalda um stækkun bílastæðisins.

Annars er það af vallarnefnd að frétta að hún vinnur nú að gerð tillagna bæði um aðgerðir sem fyrirhugaðar eru fljótlega og að heildaráætlun um framkvæmdir við völlinn til næstu 5-10 ára. Þessar tillögur verða kynntar strax og þær eru tilbúnar og hafa hlotið blessun stjórnar.

Íbúaþing um framtíðarskipan umhverfis- og útivistarmála og almenn lífsgæði á Seltjarnarnesi var haldið 7. febrúar. Allmargir klúbbfélagar sóttu þingið og leituðust við að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Félögum sem þátt tóku er ljóst að verulega virðist stundum skorta á skilning annarra bæjarbúa á starfsemi klúbbsins.

Vafalaust liggja mikil tækifæri í því að veita bæjarbúum meiri og betri upplýsingar um starfsemina og stefnir stjórnin að útgáfu kynningarefnis til dreifingar inn á hvert heimili nú í vor.

Afmælismál. Fulltrúar stjórnar og afmælisnefnd hittust og fóru yfir ágætar tillögur nefndarinnar. Ákveðið var m.a. að horfa til afmælishaldsins þannig að atburðir sem því tengdust skyldu bæði vera á núverandi starfsári, þ.e.a.s. því fimmtugasta og árinu 2014 þegar klúbburinn fyllir 50 ár í apríl. Fyrsti formlegi atburðurinn verður væntanlega vorhátíð laugardaginn 8. júní n.k., þar sem ætlunin er að bjóða öllum bæjarbúum að kynnast klúbbnum og starfsemi hans.

Vonir standa þó til að félagar verði löngu áður orðnir varir við afmælið, t.d. með pokamerkjunum fyrir 2013.

Afmælishaldið verður nánar kynnt síðar.

Vorfundur nefnda. Ákveðið er að vorfundur nefnda verði haldinn þriðjudaginn 16. apríl. Á þessum fundi munu stjórn, framkvæmdastjóri og nefndir kynna verkefni sumarsins og klúbbfélögum gefast tækifæri til þess að láta skoðanir sínar í ljósi og hafa áhrif.

Meðal þess sem búast má við að verði rætt eru aðgerðir til þess að flýta leik, skráning á fjölda þeirra sem eru að leik hverju sinni (til þess aðfylgjast með nýtingu vallarins), hvernig tekið er á móti nýjum félögum, framkvæmdir á vellinum, mótahald, forgjafarmál, afmælishald og hvaðeina sem félögum kann að liggja á hjarta.

Netfangasöfnunin. Stjórnarmenn hafa setið við og hringt í félagana í því skini að fullkomna netfangaskrá klúbbsins. Hefur þetta bæði reynst gefandi og þakklátt starf, en líka reynst heldur tímafrekara en ætlað var í upphafi. Nú eru á netfangaskrá vel á fjórða hundrað félaga og nú þegar ljóst að vinnan hefur skilað sér, t.d. í metþátttöku á herrakvöldinu sem verður á föstudaginn 1. mars.

Við munum halda þessari söfnun áfram næstu vikurnar enda miklu auðveldara að koma skilaboðum til félaganna en áður.

Næsti stjórnarfundur er áætlaður fljótlega eftir mánaðamótin febrúar/mars. Fyrir athugasemdir og tillögur á málefnum skal senda tölvupóst á haukur@nkgolf.is og/eða olingi@nkgolf.is