Stjórnarfréttir

Nesklúbburinn

Stjórn klúbbsins kom saman til fundar í gær, fimmtudaginn 11. apríl. Nú styttist óðum í að vertíðin hefjist og bar dagskrá fundarins þess merki.

Opinn fundur með nefndum verður haldinn n.k. þriðjudagskvöld kl 20:00.
Þar verður m.a. farið yfir mótahald sumarsins, endurskoðun forgjafar verður útskýrð, rætt verður um hvernig flýta megi leik á vellinum, starf kvennanefndar verður kynnt og sýndar tillögur að fyrirhugaðri endurgerð nokkurra brauta. Félagar eru hvattir til að fjölmenna, það verður heitt á könnunni.

Hversu mikið er völlurinn nýttur?
Ákveðið var að setja upp myndavélakerfi til þess að skrá nákvæmlega hvernig völlurinn verður nýttur í sumar. Áætlað er að koma skráningunni af stað eigi síðar en 1. maí. Upplýsingar um notkun vallarins eru mjög mikilvægar til þess m.a. að átta sig á þörfinni fyrir starfsmann við ræsingu, greina nákvæmlega hvernig álagið deifist innan dagsins og vikunnar, hvort ástæða sé til að setja strangari reglur um fjölda í hollum á ákveðnum tímum og því um líkt. Nánari upplýsingar verða sendar um málið þegar nær dregur.

Stækkun bílastæðis ekki samþykkt.
Umhverfisnefnd Seltjarnarness lagðist gegn stækkun bílastæðisins okkar að fenginni umsögn líf- og fuglafræðinga. Af umsögnunum má þó ráða að ástæðan sé framar öðru af skipulagslegum toga.

Framkvæmdir á vellinum.
Framkvæmdir hafa gengið ágætlega við teigana þrátt fyrir fremur óhagstæða tíð undanfarið. Ennfremur er endurnýjun glompu við 8. flöt komin vel á veg. Þeir Haukur vallarstjóri og Hreinn stórvinur okkar eru komnir á fullt við jarðvegsskipti vegna malbikunar allra stíga vallarins og er stefnt að því að ljúka því verki nú í apríl. Efnið sem fellur til er m.a. notað til þess að byggja manir milli æfingasvæðisins og fyrstu brautar.

Hreinsunardagurinn verður haldinn laugardaginn 4. maí.
Ljóst er að feykinóg verkefni verða fyrir alla á okkar árlega hreinsunardegi. Meðal annars er gert ráð fyrir að þökuleggja teiga og manir og ganga frá meðfram nýmalbikuðum stígum, auk hefðbundinna verkefna við þrif, málningu og hreinsun. Stjórnin vonast eftir fjölmenni þennan dag og liggur á bæn um hagstætt veður.

Að fundi loknum drifu fundarmenn sig heim til þess að horfa á Masters í sjónvarpinu og láta sig dreyma um gott golfsumar