Stjórnarfréttir

Nesklúbburinn

Stjórn NK kom saman til fundar miðvikudaginn 18. september.

Eins og nærri má geta var tíðarfarið fólki ofarlega í huga. M.a. greindi formaður frá því að fáeinum dögum fyrr hefði einn góður félagi í klúbbnum vikið sér að honum á KR vellinum og sagt að hann væri afleitur formaður, því veðrið hefði verið vont síðan hann tók við!

Þar eð langt var liðið frá síðasta formlega fundi var farið vítt og breitt yfir starfið. Meðal þess sem kom til umræðu var eftirfarandi:

Samspil tíðarfars og afkomu hefur komið berlega í ljós á þessu starfsári, en mikill samdráttur hefur orðið í tekjum af vallargjöldum, mótum og á æfingasvæðinu. Ennfremur hefur veitingasala ekki verið samkvæmt væntingum. Gera má ráð fyrir að miðað við óbreytt ástand eigi þetta eftir að sýna sig í náinni framtíð annaðhvort með minni framkvæmdum eða hærri álögum á félaga.

Ástand vallarins hefur hins vegar aldrei verið betra og ljóst að rigningin hefur hjálpað þar talsvert til. Nýjar framkæmdir hafa gróið vel, karginn hefur gert völlinn bæði erfiðari og skemmtilegri og nú er í gangi vinna við að útbúa vetrarflatir til þess að gera komandi vetur léttbærari og skemmtilegri fyrir þá félagsmenn sem leika golf yfir veturinn. Vallarnefnd, vallarstjóri og starfsmenn hans eiga heiður og þakkir skyldar fyrir frábært starf í sumar, og kylfingar fyrir þrautsegju þrátt fyrir erfitt veðurfar og einnig fyrir bætta umgengni um völlinn.

Talning með myndavél á umferðinni um völlinn hófst í lok júlí. Lauslega áætlað hafa aðeins verið leiknir um 100 níuholu hringir á dag að meðaltali. Eftir er að vinna betur úr gögnunum, en það virðist þó ljóst að nýting vallarins er töluvert undir væntingum og er fjarri því viðunandi.

Reglan um að hafa 10 mínútur á milli ráshópa á 1. teig virðist að margra mati vera farin að vinna sér fastan sess í hugum NK félaga en betur má ef duga skal. Það má hiklaust fullyrða að þegar reglan er haldin gengur leikur á vellinum hratt og vel fyrir sig í langflestum tilfellum.  Það er engu að síður ljóst að betur má ef duga skal þegar kemur að leikhraðanum. M.a. á grundvelli þeirra upplýsinga sem umferðartalningin gefur, verður ákveðið hvernig brugðist verður við næsta sumar og til hvaða ráða verður gripið

Klúbburinn á nú netföng um 460 félaga. Vilji er til þess hjá stjórn að nýta þessa samskiptaleið áfram eins og mögulegt er. Við skorum á alla félaga sem sjá þessar stjórnarfréttir á nk.golf.is án þess að hafa fengið vefpóst um þær, að senda netfangið sitt tafarlaust á haukur@nkgolf.is svo hægt sé að skrá það á listann.

Deiliskipulagsvinna á Vestursvæðinu er í fullum gangi, þótt fyrirséð sé að henni ljúki ekki fyrir áramót eins og til stóð. Klúbburinn ? auk margra félagsmanna persónulega – hefur lagt sig fram um að koma sjónarmiðum kylfinga á framfæri. Óhætt er að segja að allir hafi lagt sig fram og vonir standa til að einhver sá árangur náist, sem gæti orðið góð afmælisgjöf bæjarfélagsins til golfklúbbsins á 50 ára afmælinu + sem er á næsta ári.

Framtíðarskipulag og yfirbragð vallarins okkar verður hluti af deiliskipulaginu. Sú vinna sem unnin var í vor og sumar á vegum vallarnefndar mun nýtast vel í þessu sambandi, en þar er eins og margir vita m.a. gert ráð fyrir talsverðum breytingum á fyrstu, þriðju og sjöundu braut. Nú er unnið að því að safna gögnum og veita þeim sem vinna að skipulaginu sem mestar og ítarlegastar upplýsingar.

Afmælisárið framundan á að gefa okkur mikla möguleika til sóknar og fjáröflunar. Á næstu vikum verðu sett á fót fjáröflunarráð með það að markmiði að nýta sem best alla þá möguleika sem bjóðast. Afmælisnefnd, sem skilaði tillögum sínum s.l. vor mun líka hafa í nógu að snúast á næsta ári. Afmælisdagurinn sjálfur miðast við stofnun klúbbsins en hann var stofnaður 4. apríl 1964.

Aðalfundur 30. nóvember. Að venju verður aðalfundur Nesklúbbsins haldinn síðasta laugardag í nóvember, sem nú ber upp á þann 30. Fundurinn verður í skálanum og hefst kl 15:00.

Rétt er að minna áhugasama strax á hið breytta kosningafyrirkomulag sem nú kemur í fyrsta skipti að fullu til framkvæmda. Formaður og tveir varamenn eru kosnir til eins árs í senn og tveir stjórnarmenn til næstu tveggja ára. Þeir tveir stjórnarmenn sem kosnir voru í fyrra sitja hinsvegar áfram í eitt ár.

Næsti stjórnarfundur er áætlaður um miðjan október