Stjórnarfréttir í ágúst 2014

Nesklúbburinn

Á fundi stjórnar 5. ágúst s.l. voru ýmis mál á dagskrá.

Völlurinn okkar. Það er samdóma álit að völlurinn sé í einstaklega góðu ástandi og leitun sé að öðrum jafngóðum eða betri velli á Íslandi um þessar mundir. Óvenju mikil umfjöllun var í fjölmiðlum að þessu sinni um Einvígið eða Shoot-outið eins og það er gjarnan kallað upp á ensku en Jón Hjaltason leggur til að verði hér eftir kallað Útskotið á Nesinu.  Það var sérlega ánægjulegt að heyra þátttakendur hvern af öðrum lýsa því að þetta væri skemmtilegasta mót sem þeir tækju þátt í og segja að hér væru bestu flatir landsins. Allir gestir sem hingað koma virðast deila þessari skoðun en eins og allir vita er glöggt gests augað. 

Það er augljóst að hér er ekki um neina tilviljun að ræða heldur hefur einvala lið starfsmanna undir stjórn Hauks Jónssonar vallarstjóra sýnt einstakan áhuga og metnað sem hefur skilað sér með þessum hætti. Stjórnin vill í þessu sambandi vekja athygli klúbbfélaga á því að aukinni vinnu á vellinum fylgir aukinn kostnaður bæði vegna fleiri vinnutíma og rekstrar og viðhalds á tækjum og búnaði. Það er ljóst að til þess að hægt verði að viðhalda þessum gæðum og umhirðu, að ekki sé minnst á áframhaldandi endurbætur, er nauðsynlegt að auka tekjur klúbbsins til framtíðar. Þeir sem hafa kynnt sér ársreikninga undanfarinna ára sjá að það er ekki meira en svo að endar nái saman og sjálfsagðir hlutir eins og endurnýjun véla tekur verulega í. Hér má líka minna á að gríðarleg vinna er unnin í sjálfboðavinnu sem seint verður fullþakkað.

Nýting og umferðarstjórn. Eins og allir vita var ákveðið að ráða ræsi til starfa í framhaldi af eindregnum óskum félaga sem komu fram í Capacent könnun síðastliðið haust. Reynslan sem fengist hefur í sumar er sú að það þarf sjaldan á ræsi að halda en hann er afar mikilvægur þegar á reynir. Raunar verður það sífellt almennara að félagar átti sig á því einfalda grundvallaratriði sem mestu ræður um leikhraða á vellinum, en það er að fara alls ekki út örar en á 10 mínútna fresti, og svo að sjálfsögðu að fylla í fjögurra manna ráshópa þegar aðsókn er mikil svo sem flestir komist að í einu. 

Hækkun félagsgjalda á síðasta aðalfundi var m.a. rökstudd með þeim kostnaði sem fylgdi ræsingu og umferðarstjórn. Líklega er hægt að fullyrða að kostnaðurinn hafi ekki orðið jafnmikill og búist var við en það hefur sannarlega ekki veitt af tekjunum í rekstur vallarins.

Í haust liggur fyrir að lesa nákvæmlega í tölur talningarvélarinnar sem er nú í notkun fyrsta heila tímabilið. Fyrstu tölur staðfesta það sem þeir vita sem vinna á vellinum og í skálanum að nýting vallarins hefur verið afar lítil í sumar. Það er sama niðurstaða og fékkst úr talningunni seinnihluta síðasta sumars. Með allt það fólk sem bíður og hefur beðið árum saman eftir að komast í klúbbinn í huga hljótum við að velta því fyrir okkur hvort og hvernig við getum aukið nýtinguna og komið fleirum að. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar haft er í huga að tekjur klúbbsins verða að aukast.

Ný golfbílageymsla. Til skoðunar er að fella golfbílageymslu inn í nýju mönina vestan við planið sem malbikað var í sumar. Ef leyfi fæst verður þetta fyrsta skrefið í þá átt að klúbburinn eignist sjálfur þá golfbíla sem þörf er á og leigi þá til félaganna. Þeir sem eiga bíla sjálfir munu enn um sinn eiga þess kost að fá þá geymda gegn eðlilegu gjaldi. Ef leyfi fæst fyrir framkæmdinni verður hafist handa tafarlaust, en félagi í klúbbnum hefur af raunsnarskap boðist til þess að standa straum af kostnaði við verkið og að færa klúbbnum geymsluna að gjöf á 50 ára afmælinu!

Fjáröflun. Stjórnin er mjög áhugasöm um að nýta afmælisárið vel til fjáröflunar enda ljóst að mikil þörf er fyrir aukna fjármuni til uppbyggingar hvort sem aukið landrými fæst undir starfsemi klúbbsins eður ei. Nokkur fyrirtæki hafa nú þegar gert sérstakan afmælisstyrktarsamning við klúbbinn og fleiri eru í farvatninu. Einnig er vonast til metþátttöku í fyrirtækjamótinu sem fyrirhugað er 6. september, en þátttökugjald fyrir tveggja manna lið er 50 þúsund, og verður mótið sérlega veglegt bæði hvað veitingar og vinninga áhrærir.

Skipulagsmál.Á næstu mánuðum dregur til tíðinda í skipulagsmálum bæjarins hvað golfklúbbinn varðar. Í haust verða kynntar niðurstöður úr deiliskipulagsvinnu á Vestursvæðinu, þ.e. vestan Lindarbrautar. Nú hefur einnig verið sagt frá því á vef bæjarins að ráðist verði í endurskoðun aðalskipulags. Nauðsynlegt er að félagar fylgist grannt með þessum málum, taki þátt í fundum og umræðum  og komi skoðunum sínum vel á framfæri.