Stjórnarfréttir í júní 2015

Nesklúbburinn

Á fundi sínum um miðjan mánuðinn ræddi stjórnin m.a. um reynsluna sem komin var á starf vallarvarðanna og aðgerðirnar til þess að flýta leik.

Sumarið fór afar „kalt“ af stað eins og allir vita þannig að framan af sumri reyndi ekki mikið á að stýra þurfi leik á vellinum með ræsingu. Þegar þess hefur þurft hefur það gengið afar vel og vandræðalaust. Þó þykir sumum ennþá erfitt að bíða þangað til 10 mínútur er komnar frá því síðasti ráshópur hóf leik, en það er langmikilvægasta atriðið til þess að koma í veg fyrir bið úti á vellinum.

Áslaug, sem annast ræsingu og vallarvörslu ásamt Steini Baugi, sagði frá því á fundinum að óumdeilt væri að tekist hefði að flýta leik um völlinn. Telur hún að í langflestum tilfellum taki skemmri tíma en 2 klst. og 10 mínútur að ljúka 9 holu hring. Sagðist hún m.a. hafa fengið þakkir frá kylfingum sem lýstu ánægju sinni með umferðarstjórnina. Það er mat Hauks og annarra þeirra sem eru daglega á staðnum að kynningarfundirnir í vor hafi átt sinn þátt í að opna augu margra fyrir því hversu miklu skemmtilegra er að leika golf þegar aldrei þarf að bíða úti á velli.

Fallreitirnir á 3. og 8. braut gera líka örugglega sitt til að hraða leiknum, en ennþá er ekki komin reynsla á brúnu teigana. Beðið er eftir vallarmati vegna þeirra frá GSÍ, en völlurinn mun vera um 1000 metrum styttri af brúnum en gulum teigum, miðað við 18 holur.

Mikill áhugi er meðal stjórnarinnar að koma fljótlega á innanfélagsmóti þar sem allir leiki af brúnu teigunum. Vonast er til að hægt verði að hrinda þeirri hugmynd í framkvæmd fyrir júlílok, að því tilskyldu að vallarmatinu verði lokið.

Þá hefur stjórnin mikinn áhuga á að halda opið 9 holu mót og það helst á þessari leiktíð. Tilgangurinn er að kanna áhuga meðal kylfinga á því að taka þátt í móti án þess að þurfa að verja til þess lunganum úr deginum. Leikið verði að örðu leyti hefðbundið keppnisgolf með veglegum verðlaunum. Gaman væri að heyra álit félagsmanna á þessari hugmynd.