Stjórnarfréttir í nóvember 2014

Nesklúbburinn

Á fullskipuðum stjórnarfundi sem haldinn var í golfskálanum þriðjudaginn 4. nóvember voru fá, en sum talsvert stór mál á dagskrá. 

1. Stjórnarkjör á aðalfundi. Fyrst var þeirri skyldu stjórnarinnar sinnt að ganga úr skugga um að kanna hvort nægilega margir yrðu í framboði til nýrrar stjórnar á aðalfundinum sem haldinn verður laugardaginn 29. nóvember n.k. Á fundinum á að kjósa formann, tvo aðalmenn til tveggja ára og tvo varamenn. Allir viðkomandi hyggjast gefa kost á sér til áframhaldandi starfa, en jafnframt er minnt á að öllum félögum er frjálst að bjóða sig fram eins og sérstaklega var áréttað með lagabreytingu fyrir tveimur árum.

2. Nýting vallar, ræsir og leikhraði. Miklar umræður urðu á fundinum um þessi mál. Samkvæmt talningu myndavélarinnar sem vakir yfir allri umferð um 1. braut má ljóst vera að nýting vallarins er ekki mikil. Lítill vafi leikur á því að veður er þar lang áhrifamesti þátturinn. Jafnframt er ljóst að þegar um er að ræða fyrirfram skipulagðan leik, s.s. í mótum, bæði á vegum klúbbsins og í boðsmótum fyrirtækja eða á sérstökum fráteknum rástímum minni hópa virðist veðrið hafa minni áhrif. Það kemur heim og saman við reynslu annarra golfklúbba af því að taka upp rástímaskráningu, en við það eykst nýting vallar verulega.

Á síðasta aðalfundi var árgjald hækkað m.a. sérstaklega til þess að standa straum af kostnaði við vinnu ræsis á álagstímum. Í sumar var álagið eða aðsóknin sjaldnar en gert hafði verið ráð fyrir svo mikil að reyndi á starf ræsisins en þegar það gerðist sannaði hann tvímælalaust gildi sitt við umferðarstjórnun á 1. teig. Stjórnin er sammála um að ræsirinn sé kominn til að vera og gerir ráð fyrir að auka við starfið m.a. með því að meira eftirlit verði haft með leikhraða á vellinum sjálfum.

Með auknum leikhraða komast miklu fleiri að. Ef okkur tekst t.d. að stytta 9 holu hring úr tveimur og hálfum tíma í tvo tíma er það 20% stytting, sem þýðir að 20% fleiri komast að! Það munar um minna síðdegis á sólríkum, heitum þriðjudegi svo dæmi sé tekið. Stjórnin hyggst gangast fyrir því með öllum ráðum að hraða leik á vellinum þannig að bið úti á velli minnki og þar með að hringurinn taki styttri tíma.

Hugmyndin er sú að Nesvöllurinn verði þekktur fyrir hraðan leik og að svo kallað „ready golf“ verði hluti af þeirri ímynd.

3. Fjárhagsáætlun og endurnýjun véla. Eins og áður hefur komið fram í stjórnarfréttum er framundan verulegt átak varðandi endurnýjun á vélakosti klúbbsins. Það hefur kostað sitt að halda vellinum í þeim gæðum sem við höfum notið í sumar og ljóst að til þess að svo megi verða áfram þarf að grípa til einhverra ráða. Framundan eru m.a. nauðsynleg endurnýjun á tveimur vélum sem samtals kosta um 13 milljónir króna, en þær ganga að sjálfsögðu fyrir rafmagni í samræmi við umhverfisstefnu klúbbsins. Til þess að fjármagna slík kaup þarf annað hvort að skuldsetja klúbbinn eða auka tekjur hans umtalsvert.

Í ljósi þeirra talna sem nú eru fyrirliggjandi varðandi nýtingu vallarins undanfarin tvö ár og með hliðsjón af því að skjóta þarf sterkari stoðum undir veitingareksturinn í klúbbnum, telur stjórnin þann kost vænstan að fjölga félögum til þess að standa straum af auknum kostnaði á næstu árum. Þess vegna samþykkti stjórnin að í fjárhagsáæltun fyrir árið 2015 sem lögð verður fyrir aðalfundinn verði gert ráð fyrir 100 nýjum félögum.Eftir miklar umræður var jafnframt ákveðið að ef þessi fjölgun reynist verða til þess að álag á vellinum aukist um of verði ekki teknir inn nýir félagar fyrir þá sem hætta, næstu eitt til þrjú árin eða þar til núverandi félagafjöldi næst á ný.