Á miðvikudaginn næstkomandi (16. júlí) mun ég halda styrktarmót á Nesvellinum.
Ég stefni að því að taka þátt í úrtökumótum fyrir evrópsku og bandarísku mótaraðirnar í golfi í haust. Markmiðið er að vera í mínu allra besta formi þegar úrtökumótin hefjast og öðlast þátttökurétt meðal bestu kylfinga heims.
Mótið mun hefjast klukkan 08:00 og verður ræst út til klukkan 19:30. Ekki eru bókaðir rástímar heldur er boltarennan í gildi á fyrsta teig.
Leiknar verða 9 holur og verða veitt verðlaun fyrir 3 efstu sætin í punktakeppni og 3 efstu sætin í höggleik án forgjafar. Einnig verða veitt nándarverðlaun ásamt því að dregið verður úr skorkortum.
Verðlaunaafhending er áætluð um klukkan 22:30.
Verð á hverjar 9 holur er 3.000.-kr. en þátttakendum er frjálst að leika fleiri hringi og telur þá besti hringurinn.
Fjöldi af frábærum verðlaunum í boði, þökk sé styrktaraðilum mótsins, til að mynda flugferðir til Evrópu með Icelandair og flugferðir innanlands með Flugfélagi Íslands.
Nesvöllurinn er í frábæru ásigkomulagi. Spáð er góðu veðri á miðvikudaginn, sól og rólegum vindi. Ég vona að sem flestir sjái sér fært að mæta og veita mér stuðning ásamt því að spila í skemmtilegu móti á flottum golfvelli.
Með golfkveðju,
Ólafur Björn Loftsson