Þið sem hélduð að þetta væri bara grín

Nesklúbburinn Almennt, Póstlistar allir

Við erum svo lukkuleg að vera umvafin dásamlegri náttúruperlu á Nesinu þegar við spilum golf.  Við gerum kröfur gæði og fegurð vallarins og finnst oftar en ekki sjálfsagt að bæði flatir og brautir séu alltaf upp á sitt besta.  En það sem sennilega fæstir vita að á bakvið þessi gæði og fegurð liggur þrotlaus vinna vallarstarfsmanna okkar undir dyggri stjórn Bjarna Þórs Hannessonar Íþróttavallayfirborðstæknifræðings – já þessi starfstitill er rétt orðaður og á svo sannarlega vel við Skagamanninn Bjarna okkar vallarstjóra.  Hann á það nefninlega til að grafa oft lengra en margur í leit að svörum við að gera völlinn okkar eins góðan og kostur er á hverju sinni.

Fyrir utan starfstitilinn voru það líka öll fræðin á bakvið starfsemina sem vakti athygli dagskrárgerðarfólks Kastljóss sem sýndur er á RÚV.  Nýlega tóku þau hús á Bjarna þar sem hann lék við hvern sinn fingur í viðtalinu og upplýsti landsmenn um svo margt sem gerist á bakvið tjöldin og við hin sjáum sjaldnast eða aldrei en finnst bara sjálfsagt.  Þetta nefninlega snýst ekki bara um að slá grín.

Þátturinn var sýndur á RÚV fyrr í kvöld og er sjón svo sannarlega sögu ríkari.  Hægt er að sjá þáttinn með því að smella hér og byrjar innslagið eftir 12 mínútur og 50 sekúndur.