Opna Þjóðhátíðardagsmótið fór fram í öllum útgáfum af veðri á Nesvellinum í dag. Rjómablíða fylgdi fyrstu ráshópunum af stað í morgun en svo tók að blása töluvert úr suðri án allrar úrkomu þó. Eftir hádegið lægði svo aftur og við tók rigning með hellidembum inn á milli og komu síðustu kylfingarnir ansi blautir í hús að leik loknum. Það voru hundrað og fjórir kylfingar tóku þátt í mótinu og komust færri að en vildu enda mótið ávallt eitt það vinsælasta á Nesvellinum á ári hverju og mjög góð verðlaun í boði frá ICELANDAIR. Veitt voru verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í höggleik og punktakeppni ásamt nándarverðlaun á par 3 brautum og fyrir að vera næst holu í tveimur höggum á 8./17. braut. Í punktakeppninni sigraði Magnús Margeirsson en hann fékk m.a. tvo fugla á hringnum, lék á 86 höggum og endaði með 43 punkta. Í höggleiknum tryggði Nökkvi Gunnarsson sér sigur með því að leika á 69 höggum þar sem hann endaði síðustu tvær brautirnar með fugli á 17. braut og svo glæsilegum erni á þeirri síðustu. Helstu úrslit urðu annars eftirfarandi:
Höggleikur:
1. sæti – Nökkvi Gunnarsson, NK – 69 högg
2. sæti – Ólafur Björn Loftsson, NK – 70 högg
3. sæti – Ragnar Már Garðarsson, GKG – 72 högg
Punktakeppni:
1. sæti – Magnús Margeirsson, NK – 43 punktar
2. sæti – Gunnar Gíslason, NK – 40 punktar
3. sæti – Helga Kristín Einarsdóttir, NK – 39 punktar
Nándarverðlaun:
2./11. braut: Guðmundur Þóroddsson – 1,12 metra frá holu
5./14. braut: Eiður Ísak Broddason – 1,87 metra frá holu
8./17. braut: Óskar Dagur Hauksson – 0,48 metra frá holu