Vinsamlegast lesið – deiliskipulag sem skiptir klúbbinn öllu máli

Nesklúbburinn

Í síðustu viku fór fram kynningarfundur á vegum Seltjarnarnesbæjar á nýju deiliskipulagi fyrir allt svæðið vestan Lindarbrautar, þar með talið er bæði Suðurnesið þar sem golfvöllurinn liggur og svæðið frá Bakkatjörn að og með Gróttu.

Á fundinum kom m.a. fram að í núverandi skipulagi væri gert ráð fyrir útivistarsvæði frá friðaða svæðinu við Bakkatjörn allt upp að Ráðagerði. í deiliskipulaginu á m.a. að skipuleggja þetta svæði nánar og það er alveg ljóst að þetta er eina tækifærið í fyrirsjáanlegri framtíð til þess að auka við möguleika til golfiðkunar á Seltjarnarnesi.

Forsvarsmenn klúbbsins hafa eins og margir vita kynnt bæjarstjórn hugmyndir sínar að sameiginlegu útivistarsvæði og munu að sjálfsögðu senda þær hugmyndir inn í nafni klúbbsins.

Það skiptir hins vegar mjög miklu máli að félagsmenn láti frá sér heyra persónulega til þess að ekki fari á milli mála að skipulag þessa svæðis stendur þeim nærri, sem íbúum Nessins. Þess vegna hvetur stjórn klúbbsins alla Seltirninga í NK til þess að senda póst á netfangið postur@seltjarnarnes.is fyrir lok júní og segja skoðun sína á málinu.

Það þarf ekki endilega að krefjast þess að klúbburinn sem slíkur fái eitthvað út úr þessu skipulagi, heldur t.d. bara að fara fram á að tekið verði tillit til þess gríðarlega fjölda sem hefur áhuga að geta stundað golf, en kemst ekki að í klúbbnum við núverandi aðstöðu. Biðja t.d. um hvort ekki mætti huga að því að setja upp par þrír æfingavöll sem nýtast myndi sérstaklega börnum, öldruðum og byrjendum. Spyrja hvort ekki sé rétt að huga að hagsmunum þeirra 600 sem eru á biðlista eftir klúbbaðild. Benda á hversu gríðarlega góð landnýting er á golfvelli. Hversu vel golfið fer með náttúrunni og fuglalífinu. Benda á að e.t.v. megi stórauka varp á svæðinu með því að koma þar upp golfbrautum. Minna á hversu gríðarlega mikilvæg heilsuvernd er fólgin í möguleikum aldraðra á að stunda golfið og hversu hollt það er börnum og unglingum að njóta agaðs uppeldis á golfvellinum. Það þarf örugglega ekki að leggja ykkur til orð og hugmyndir, aðeins hvetja ykkur til þess að láta frá ykkur heyra.

Ef spurningar vakna eða þið viljið ræða málin þá endilega hafið sambandi við formann NK í síma 824 2156 eða á póstfangið olingi@nkgolf.is