Eins og áður hefur komið fram fór í dag fram úrslitaleikurinn í ECCO Bikarkeppninni. ECCO Bikarkeppnin hefst ávallt með forkeppni í byrjun maí sem er höggleiksmót með forgjöf. Í forkeppninni tóku 108 kylfingar Nesklúbbsins þátt og komust 32 áfram. Þá tekur við útsláttarfyrirkomulag þar sem leika saman einn á móti einum, holukeppni með forgjöf þar til tveir kylfingar standa eftir og leika til úrslita.
Til úrslita í dag léku þær Karlotta Einarsdóttir, margfaldur klúbbmeistari Nesklúbbsins og Helga Kristín Einarsdóttir upprennandi og bráðefnileg stúlka sem æfir með unglingahópi klúbbsins. Leikur þeirra í dag var æsispennandi framan af þar sem m.a. allt var jafnt að loknum níu holum. Helga sigraði svo 10. holu og hélt í framhaldinu Karlottu ávallt fyrir aftan sig og sigraði að lokum 4/2. Frábær árangur hjá Helgu Kristínu sem fyrir vikið varð fyrsta konan til að hljóta titilinn Bikarmeistari Nesklúbbsins.