Keppni í ECCO holukeppnunum, þ.e. Bikarmeistari Nesklúbbsins 2022 og Klúbbmeistari Nesklúbbsins í holukeppni 2022 lauk í gær. Eins og áður hefur komið fram var leikið eftir nýju fyrirkomulagi í ár þar sem að allir leikir í holukeppninni höfðu fastan leikdag. Veitt var þó heimild til þess að leika fyrir settan leikdag og eftir settan rástíma á leikdegi að því gefnu að leik yrði lokið eigi síðar en fyrir miðnætti sama dag og settur rástími var settur.
Keppnin um Bikarmeistara í holukeppni var að mörgu leiti söguleg. Aldrei hafa jafn margar konur komist 32 manna úrslit eða í gegnum niðurskurðinn og í undanúrslitum voru þrjár konur og einn karlmaður. Í úrslitaleiknum voru það svo tvær konur, þær Þyrí Valdimarsdóttir og Jórunn Þóra Sigurðardóttir sem öttu kappi í æsispennandi leik. Jafnt var eftir 9 holur og fór svo að lokum að Þyrí hafði sigur 3/2 og er því Þyrí Valdimarsdóttir bikarmeistari Nesklúbbsins 2022.
í keppninni um Klúbbmeistara í holukeppni voru það þeir Kjartan Óskar Guðmundsson og Ólafur Marel Árnason sem öttu kappi í úrslitaleiknum og fór svo að lokum að Kjartan Óskar hafði sigur 4/2. Kjartan Óskar er því Klúbbmeistari Nesklúbbsins í holukeppni 2022.
Nýtt fyrirkomulag mótsins með föstum leikdögum mæltist heilt yfir mjög vel fyrir. Keppendur vissu nákvæmlega hvenær þeir áttu að keppa næsta leik og miklu betri stemmning skapaðist í kringum mótið. Ákveðið hefur verið að halda sama fyrirkomulagi á næsta ári og vita þá allir hvernig útfærslu mótsins er háttað.