Rúnar Geir Gunnarsson kylfingur úr Nesklúbbnum gerði sér lítið fyrir og sigraði á Vormóti Hafnarfjarðar sem haldið var á Hvaleyrarvelli hjá Golfklúbbnum Keili um helgina. Mótið var bæði punktakeppni og höggleikur og lék Rúnar Geir á 70 höggum eða einu höggi undir pari vallarins sem tryggði honum sigur í höggleik. Alls voru 133 kylfingar skráðir til leiks og var að sögn viðstaddra fínasta veður og völlurinn óðfluga að nálgast sitt rétta form. Sigurinn hjá Rúnari Geir um helgina var honum afar kærkominn því fyrir þetta mót hafði hann tekið þátt í fjórum mótum í sumar og endað í öðru sæti í þeim öllum.