Aftursveiflan og stefnustjórnun í vippum

Nesklúbburinn Almennt

 

Önnur vika:

Æfing í Hraunkoti með áherslu á meginhreyfingar í aftursveiflu.
Byrjun: Samfeld hreyfing handa og axla, svipað og púttstroka. Við stillum öðrum bolta u.þ.b. feti aftan við og um tommu innan við boltann sem við ætlum að slá. Í aftursveiflunni ýtum við síðan þessum bolta frá höldum síðan áfram og sláum eðlilega. Þessi æfing tryggir réttar hreyfingar og feril í byrjun aftursveiflu.
Úlnliðsbeygja: Við leggjum niður kylfu samhliða höggstefnu útfrá utanverðum hægri fæti, í beinni línu frá tábergi. Eftir að hafa framkvæmt byrjunina bætum við annari hreyfingu við, snúningi framhandleggja og úlnliðsbeygju. Þegar kylfan kemst í lárétta stöðu á leiðinni aftur ætti hún að liggja beint yfir eða a.m.k. samsíða kylfunni sem við lögðum niður á jörðina.
Handleggjalyfta: Næsta hreyfing er lyfting handleggja, hún er nauðsynleg til þess að skapa rétt högghorn niður á boltann. Væri hún ekki til staðar þyrftum við að sópa boltanum af jörðinni með kylfunni.
Snúningur axla og mjaðma: Með snúningi axla og mjaðma höldum við kylfunni á réttum ferli. Mismunurinn á snúningi axla og mjaðma myndar síðan spennu sem býr til kylfuhraða í niðursveiflu. Æskilegur mjaðmasnúningur í aftursveiflu er um 30 til 40 gráður, axlasnúningur síðan 80 til 90 gráður. Mismunurinn 40 til 60 gráður myndar spennu ekki ósvipað því þegar við spennum boga. Ef við snúum mjöðmum of mikið eða missum líkamsþungan utanvert á hægri fót í aftursveiflu þá náum við ekki að mynda nægilega spennu. Æfingin sem við gerum hér er að setja körfubolta á milli ökklakúlanna og spenna ökklana saman. Úr þessari stöðu sláum við eðlilegt högg. Með þessu tryggjum við að líkamsþunginn fer ekki út á jarkann á hægri fæti og komum í veg fyrir slide á mjöðmum.
Æfing í Laugardalshöll með áherslu á stefnustjórnun í vippum.
Hér er unnið með áhrifavalda stefnustjórnunar, stefnu kylfuhauss, sweetspot, feril, legu kyfluhauss.
Stefna kylfuhauss: Vippum á stöng af um 2 m færi. Reynum að fljúga boltanum í stöngina.
Sweetspot: Vefjum teygjum utan um hæl og tá kylfuhauss, vippum síðan og reynum að hitta boltann á kylfuhausinn á milli teygjanna. Einnig er hægt að nota tape á höggflöt til að sjá hvar boltinn lendir.
Ferill: Krítum línu í höggstefnu,  leggjum síðan niður kylfu samsíða línunni rétt innan við fætur. Vippum og pössum að missa kylfuna ekki innfyrir innri kylfuna í aftursveiflu og reynum að fylgja krítuðu línunni fyrir og eftir snertingu við boltann.
Lega kylfuhauss: Vippum fyrir framan spegil og veitum því athygli hvernig kylfan liggur í upphafsstöðu. Setjum tape undir kylfubotninn og sjáum hvernig kylfan kemur niður í högginu.
Ég minni á námskeið sem fer í gang 1. febrúar, http://betragolf.is/blog/record/496301/
Með kveðju, Nökkvi