Annika Sörenstam með golfsýningu á Nesvellinum

Nesklúbburinn

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum undanfarna daga er von á Anniku Sörenstam, einni stærstu íþróttastjörnu allra tíma til Íslands í sumar.  Á meðal þeirra viðburða sem hún mun vera með á meðan að dvöl hennar stendur, er að halda golfsýningu (golf clinic) á Nesvellinum, mánudaginn 11. júní.  

Að sögn Kristins Ólafssonar formanns Nesklúbbsins segir hann það fyrst og fremst vera heiður og mikla viðurkenningu fyrir klúbbinn að Nesvöllurinn hafi orðið fyrir valinu fyrir slíkan stórviðburð.  „Við verðum tilbúin í þetta stóra verkefni.  Með dyggri aðstoð sjálboðaliða úr klúbbnum búum við náttúrulega yfir áralangri reynslu að halda viðburð á við Shoot-outið en þetta verður miklu stærra.  Við erum svo heppin að félagsmenn okkar eru alltaf tilbúnir þegar til þeirra er leitað og við treystum þeim eftir sem áður til að leggjast á eitt og vera tilbúnir í þau störf sem fyrir liggja til að gera þennan viðburð ekki bara klúbbnum, heldur golfíþróttinni á Íslandi til sóma.  Þeir kylfingar sem hafa verið lengi í golfi muna eflaust eftir þegar að Jack Nicklaus kom og hélt á Nesvellinum sambærilega sýningu 1976.  Það er því stórkostlegt að fá tækifæri til að taka nú á móti Anniku Sörenstam, einu stærsta nafninu í sögu kvennagolfsins til okkar á Nesvöllinn“.

Annika var á sínum tíma í sérflokki í atvinnugolfi í kvennaflokki.  Hún hefur meðal annars sigrað á 10 risamótum á ferlinum og er þriðji sigursælasti kylfingurinn á LPGA mótaröðinni allra tíma með 72 sigra.