Búið að gefa inniaðstöðunni nafn

Nesklúbburinn

Hin nýja inniaðstaða Nesklúbbsins á Eiðistorgi hefur nú loksins fengið nafn.  Nafnasamkeppni á meðal félagsmanna var ýtt úr vör í kringum áramótin, þar sem bárust rúmlega 60 tillögur.  Stjórn klúbbsins ákvað að setja þær tillögur í hendur óháðrar nefndar sem að lokum skilaði þeirri einróma niðurstöðu að aðstaðan skildi bera nafnið RISIÐ.  Á formlegri opnun inniaðstöðunnar sem haldin var í gær var nafnið opinberað og mun inniaðstaðan því hér eftir bera það nafn.  
Það voru þau Bryndís Sverrisdóttir og Sævar Egilsson sem áttu hugmyndina að nafninu.  Einnig var dregið úr innsendum tillögum og var nafnið sem Arnfinnur Berthelson skilaði inn dregið út.  Þau eiga hvert og eitt inni 3 tíma í golfherminum og geta nálgast vinningana í Risinu eftir helgi.

Rökstuðningur nefndarinnar fyrir vali nafnsins var eftirfarandi:

Alls bárust dómnefnd sextíu tillögur og kenndi þar ýmissa grasa.  Nefndin hafði þann hátt á að hver og einn nefndarmaður fyrir sig las yfir allar tillögurnar og valdi úr þeim þær sem hann taldi bestar, á sínum eigin forsendum. Þegar menn báru svo saman bækur sýnar kom í ljós að allir höfðu haft það sama að leiðarljósi og niðurstaðan varð þar af leiðandi nokkuð augljós. 

Mikilvægast þótti að nafnið væri einfalt, skiljanlegt og þjált í notkun. Horft var til þess að það væri lýsandi um aðstöðuna, laust við alla tilgerð og stæðist tímans tönn. Síðast en ekki síst væri það klúbbnum samboðið og allir félagar líklegir til þess að nota það að staðaldri.  Risið er bæði afar þjált og lýsandi og sérstaklega blátt áfram og einföld nafngift.