Kæru félagar,
Nú er aðalfundur og fyrsti fundur nýrrar stjórnar að baki þar sem við skiptum með okkur verkum lögum félagsins samkvæmt. Ein breyting varð á stjórn, Stefán Örn Stefánsson gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og þökkum við honum fyrir mjög gott starf innan stjórnar. Þórkatla Aðalsteinsdóttir kom ný inn í sjórn og bjóðum við hana hjartanlega velkomna til starfa fyrir hönd klúbbsins. Hægt er að nálgast upplýsingar um stjórn félagsins á heimasíðu klúbbsins eða með því að smella hér.
Ég vil vekja sérstaka athygli á nýrri nefnd sem sett hefur verið á laggirnar, en það er Forvarna- og lýðheilsunefnd. Hlutverk nefndarinnar er að halda til haga og kynna fyrir stjórn og félagsmönnum þær stefnur, reglur og áætlanir er klúbburinn vinnur eftir með tilliti til forvarna og lýðheilsu, t.d. siðareglur, persónuverndarstefna, umhverfisstefna, aðgerðaráætlun í eineltismálum, jafnréttisstefna, viðbragðsáætlun, heimsmarkmiðin (Samfélagsleg ábyrgð) og lýðheilsutengd mál (rannsóknir, kynningar og staðreyndir). Starf nefndarinnar verður allt kynnt betur þegar líður að sumri.
Við erum þegar farin að skipuleggja næsta golfár og mótaskrá ársins liggur fyrir og samþykkt af stjórn. Það dregur helst til tíðinda að meistaramótið flyst eina viku aftur miðað við það sem hefur verið á undanförnum árum, en helstu rök fyrir þeirri breytingu er að fyrri helgin rekst á mót hjá GSÍ sem og gefur það okkur tækifæri til að hafa barna- og unglingamótið á undan flokkaskipta mótinu, auk þess sem völlurinn verður orðinn viku eldri.
Áhugi á firmakeppninni hefur farið þverrandi á undanförnum árum eins og fram kom í skýrslu stjórnar síðasta árs og tökum við hana því út á næsta sumri. Í staðinn verður haldið innanfélagsmót í betri bolta. Að lokum munum við endurvekja draumahringinn (eclectic), þar sem draumahringurinn saman stendur af besta skori hvers og eins á hverri holu í mótum sumarsins. Annars hefur mótaskrá sumarsins fyrir tímabilið 2023 hefur verið birt með fyrirvara um breytingar inni á heimasíðu klúbbsins (smella hér) og verður sett inn á golf.is á allra næstu dögum og svo formlega kynnt eftir áramótin.
Það er algjör óþarfi að setja golfsettið inn í geymslu þar sem Nesvellir standa félagsmönnum opnir og skora ég á alla að kynna sér spennandi mótaskrá sem þar er í vetur og nota aðstöðuna til að æfa og viðhalda sveiflunni. Allar nánari upplýsingar um Nesvelli og mótaskránna þar er að finna inni á heimasíðu klúbbsins eða með því að smella hér.
Ég vil að lokum nota tækifærið og óska ykkur gleðilegra jóla með þökk fyrir ánægjulegt golfár sem nú er að renna sitt skeið. Við tekur spennandi ár hjá Nesklúbbnum og hlakka ég mikið til að taka þátt í því með ykkur.
Jólakveðja,
Þorsteinn Guðjónsson
formaður