Kæru félagar,
Nú er loks farið að vora og þá styttist biðin í að komast út að spila golf inn á sumarflatir. Margir hafa linað þjáningarnar í vetur og haldið sveiflunni vel við í inniaðstöðunni okkar á Nesvöllum. Það hefur verið gaman að sjá hvað inniaðstaðan okkar hefur verið vel sótt í vetur. Yfir 130 krakkar hafa stundað golfþjálfun í vetur sem er hreint frábært, en þessi ótrúlegi vöxtur í barna og unglingastarfinu er afrakstur mikillar og vandaðrar vinnu sem Steinn Baugur íþróttastjóri klúbbsins og þjálfarar hafa boðið upp á. Auk barna og unglingastarfsins hefur þjálfun fyrir eldri borgara verið vel sótt. Gaman er líka að segja frá því að í vetur bauðst nemendum í Valhúsaskóla að taka golf sem valfag og er það í fyrsta sinn sem boðið er upp á slíkt hér á landi, að okkar bestu vitund. Þessi tilraun tókst það vel að fullbókað er í golfið á haust og vetrarönn næsta skólaárs! Eins og heyra má hefur verið nóg að gera á Nesvöllum í vetur, við höfum lært margt og margar hugmyndir eru á takteinum fyrir næsta vetur.
Eins og flestir ættu að vita þá var óvenju mikið frost í vetur sem gerir það að verkum að jarðvegurinn er frosinn dýpra niður en við eigum jafnan að venjast. Það þýðir að vinna við völlinn hefur tafist og frestuðum við því hreinsunardeginum, fyrst til 6. maí. Nú hinsvegar liggur fyrir að við þurfum að fresta um viku í viðbót eða til laugardagsins 13. maí n.k. Hreinsunardagurinn er að jafnaði sá dagur sem opnað er inn á sumarflatir og veitingasalan hefur starfsemi. Vonandi sjá sem flestir sér fært að mæta og leggja okkur lið á hreinsunardaginn, en ómetanlegt starf hefur jafnan verið unnið þennan dag af sjálboðaliðum klúbbsins. Sú vinna sem fer fram á hreinsunardaginn er klúbbnum gríðarlega mikilvæg og hefur það verið til fyrirmyndar hversu margir hafa verið tilbúnir að leggja hönd á plóg í gegn um tíðina. Ég vil því nota tækifærið og hvetja alla til að mæta – það þarf að skrá sig til þátttöku inni á golfbox eða með því að smella hér. Í kjölfar vinnunnar sem tekur jafnan um 2 tíma er boðið upp á grillaðar pylsur og svo er slegið upp í 9 holu mót.
Á dögunum var gengið frá ráðningu nýs aðstoðarvallarstjóra, en hann heitir Snorri Ragnar Bragason. Bjóðum Snorra hjartanlega velkominn og tökum vel á móti honum en hann er þaulvanur viðgerðarmaður á vélum sem á svo sannarlega eftir að nýtast okkur vel ásamt því sem hann mun vinna líka á vellinum.
Í sumar kynnum við þá nýjung að iðkendur skrái mætingu áður en spilað er. Nánari leiðbeiningar hvernig það fer fram verða sendar út á næstunni og einnig verður hægt að finna þær á heimasíðu klúbbsins www.nkgolf.is . Strangt verður tekið á því ef meðlimir mæta ekki á bókaðan rástíma eins og getið er á um í reglum klúbbsins um rástímabókanir (sjá hér). Það er gríðarlega mikilvægt að við virðum rástímana og séum ekki að bóka þá nema við séum ákveðin í að ætla í golf. Það er nokkuð víst að matvöruverslanir myndu ekki fagna því ef við værum í því að kaupa auka mjólk til öryggis og skiluðum henni svo aftur á síðasta söludegi. Höfum það í huga.
Á síðasta fundi stjórnar var ákveðið að gera tilraun á því að þeir sem eru í barna- og unglingaaðild geti bókað rástíma 3 dögum fram í tímann (meðlimir eru með 5 daga) og þeir sem eru í aukaaðild geti bókað 2 dögum, en óbreytt verði fyrir meðlimi í öðrum klúbbum 1 dagur. Þetta verður gert eins og áður sagði til prufu í maí til að byrja með til að sjá hvort að þetta bitni nokkuð á fullgildum félagsmönnum sem við höfum að sjálfsögðu ávallt í forgrunni og munum við svo meta það mánuð fyrir mánuð í sumar.
Vinir á ferð. Nýverið samþykkti stjórn klúbbsins að bjóða félagsmönnum upp á það að taka með sér vini á völlinn gegn lægra gjaldi. Með pokamerkjunum ykkar sem munu berast ykkur í vikunni fáið þið klippikort sem hægt verður að nýta á föstudögum, laugardögum og sunnudögum eftir kl. 14.00 og þá greiða 50% af vallargjaldi fyrir vin/i. Við stígum varlega til jarðar með þessa tilraun og því fær hver félagsmaður þrjú skipti hver í þessari umferð og munum við meta eftir sumarið hvernig til tókst. Nánar má sjá um reglur þessarar nýjungar með því að smella hér.
Ég læt staðar numið að sinni. Vonandi sjáumst við sem fyrst á golfvellinum.
Sumarkveðja,
Þorsteinn Guðjónsson
formaður